*

Sport & peningar 7. júlí 2021

Hvað er í húfi fyrir liðin sem eftir eru á EM?

Sigur­vegari mótsins fer heim með um fjóra milljarða dollara en um 55 milljarðar króna verða veittar í verð­launa­fé til liðanna á mótinu.

Snær Snæbjörnsson

Evrópu­mótið í knatt­spyrnu fer nú senn að líða að lokum og því um að gera að renna yfir hvað er í húfi fyrir þátt­tak­endur mótsins en vinnings­liðið gæti farið heim með allt að 33,4 milljónir dollara, um 4,2 milljarða króna, í far­teskinu.

Spenna er farin að færast í leikinn en England, Ítalía og Danmörk eru öll í baráttunni um að verða Evrópumeistarar. Kemur fótboltinn loksins heim? Munu Danir ná að leika eftir afrekið frá 1992? Tekst Ítölum að sigra í fyrsta sinn síðan 1968?

Upp­haf­leg fjár­hags­á­ætlun fyrir mótið gerði ráð fyrir að veita um 439 milljónum dollara, um 55 milljarða króna, í verð­launa­fé til þeirra liða sem taka þátt á mótinu. Sú upp­hæð var síðar lækkuð niður í 392 milljónir dollara sökum tafa á mótinu og tak­marka á á­horf­enda­fjölda. Upp­hæðin er samt sem áður tölu­vert hærri en fyrir EM 2016 sem var þá 333 milljónir dollara.

Öll lið sem komast í loka­keppni mótsins fá um 11 milljónir dollara í verð­launa­fé. Í riðla­keppninni fá lið 1,2 milljónir dollara fyrir sigur og helminginn af þeirri upp­hæð fyrir jafn­tefli. Lið fá síðan 1,8 milljónir dollara fyrir að komast í 16 liða úr­slit og þrjár milljónir dollara fyrir að komast í átta liða úr­slit. Þau lið sem að komast í undan­úr­slit fá 4,7 milljónir dollara.

Liðið sem að hafnar í öðru sæti fær þar að auki 5,9 milljónir dollara og liðið sem að sigrar keppnina fær 9,5 milljónir dollara. Takist Ítalíu til að mynda að vinna keppnina mun liðið fá 33,4 milljónir dollara fyrir en liðið hefur unnið alla leiki sína á mótinu til þessa. Auk Ítalíu á Dan­mörk og Eng­land mögu­leika á að vinna keppnina þegar þetta er skrifað.

Vinni Dan­mörk mótið mun liðið fá um 31 milljón dollara fyrir en liðið byrjaði á að tapa fyrstu tveimur leikjum sínum á mótinu. Vinni Eng­land mótið fær liðið um 32,8 milljónir dollara en það hefur unnið alla sína leiki fyrir utan jafntefli við nágranna sína í Skotlandi.

Enska knattspyrnusambandinu veitir ekki af vinnings­fénu en talið er að það hafi tapað yfir 400 milljónum dollara í far­aldrinum og þurfti þar að auki að segja upp vel yfir hundruð manns.

Stikkorð: EM  • 2021