*

Hitt og þetta 17. ágúst 2018

Hvað segði Keynes um Brexit?

John Maynard Keynes myndi takast á við Brexit-samningana af framsýni, innsæi og auðmýkt.

John Maynard Keynes var einn frægasti hagfræðingur sögunnar, og var fátt óviðkomandi í sambandi við hagfræði og stjórnmál. En hvað þætti honum um Brexit, og hvernig myndi hann takast á við þá stöðu sem nú er komin upp?

Breska tímaritið Economist reynir að svara þeirri spurningu í grein á vef sínum. Keynes er sagður hafa verið mikill raunsæismaður, og það eitt víst, að hann yrði við samningaborðið.

Farið er yfir samningaferil hans, en hann var meðal annars einn af fulltrúum Bretlands á Versalaráðstefnunni frægu eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, sem lauk með Versalasamningunum. Samningurinn kvað á um að Þjóðverjar greiddu himinháar stríðsskaðabætur, en því var Keynes mótfallinn, og sagði af sér stöðu sinni í mótmælaskyni.

Andstöðuna byggði hann á efnahagslegum, frekar en siðferðislegum rökum, og sagði það í hag allrar Evrópu að setja miðveldunum (Central Powers) vægari skilyrði.

Keynes var einnig leiðtogi sendinefndarinnar sem kom upp Bretton Woods kerfinu svokallaða eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, sem lagði grundvöllinn að skipan milliríkjaviðskipta næstu áratugina, og kvað á um stofnun Heimsbankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Keynes er sagður myndi hafa þrjú heilræði fyrir Brexit-samningamenn Bretlands í dag.

Hið fyrsta væri að skilja stöðu gagnaðila sinna í Brussel. Lykilinn að velgengni í samningum sagði hann vera að setja sig í spor viðsemjenda sinna og skilja hugarfar þeirra og markmið.

Í öðru lagi ættu samningamenn að forðast að benda á framlag Bretlands til Evrópusambandsins hingað til. Betra væri að horfa fram á við og sannfæra forystu sambandsins um virði Bretlands sem bandamanns, bæði í viðskiptum og í alþjóðastjórnmálum.

Þriðja og síðasta heilræðið væri að sýna vilja Bretlands til að viðhalda opnum og frjálsum alþjóðaviðskiptum, og sýna þannig sambandinu að eyjaþjóðin væri góður viðskiptafélagi til framtíðar.

Væri Keynes á lífi í dag, segir í greininni, myndi hlakka í honum við tilhugsunina um að takast á við þær miklu vitsmunalegu og pólitísku áskoranir sem Brexit felur í sér.

Það eru hinsvegar allar líkur á að hann hefði lagst gegn útgöngunni til að byrja með.

Stikkorð: Brexit  • Keynes