*

Tölvur & tækni 9. mars 2014

Hvað segir tölvuleikurinn um þig?

Teknar voru saman staðalímyndir tölvuleikjaunnenda í Eftir vinnu sem kom út á dögunum.

Bjarni Ólafsson

Tölvuleikir hafa til löngu rutt sér til rúms í heimi dægurmenningar og afþreyingar og eru orðin nokkur ár frá því að sölutekjur tölvuleikjageirans urðu meiri en kvikmyndaiðnaðarins og breikkar bilið með hverju árinu sem líður.

Ólíkt kvikmyndaunnendum virðast tölvuleikjaspilarar nefnilega hengja sjálfsmynd sína í meira mæli á tölvuleikina. Felicia Day atvinnunörd mun stýra DICE tölvuleikjaverðlaunahátíðinni með Freddie Wong og sagði í nýlegu viðtali að henni virtist sem unnendur mismunandi tölvuleikja eða tölvuleikjategunda líti hver á annan sem óvin. Líkt og með kvikmyndir höfða mismunandi tölvuleikir til mismunandi fólks og segir það töluvert um persónuleika viðkomandi hvers konar tölvuleiki hann, eða hún, spilar.

Hér fylgir mjög alhæfandi og óhlutlæg yfirferð yfir staðalímyndir tölvuleikjaunnenda:

Facebook-leikir konur á ákveðnum aldri

 Svokallaða „casual“ leiki voru einu sinni hægt á síðum eins og Popcap, en eru nú nær alfarið á Facebook. Áhugavert er að þegar þessir leikir eru teknir með í tölfræðina kemur í ljós að fleiri konur en karlar spila nú tölvuleiki. Notendur leikja eins og Candycrush og Farmville eru að mjög stórum hluta konur. Staðalímyndir í þessu tilviki eru tvær. Annars vegar konur á miðjum aldri, sem gjarnar eru á að smella á Facebook vírusa eins og „Hver er þinn andlegi aldur“, og hins vegar nýbakaðar mæður sem spila tölvuleiki á milli þess sem þær rífast hver við aðra á Bland.is. Eiginmenn þeirra eru hins vegar líklegri til að leggja kapal í tölvunni, sem færa má rök fyrir að sé ennþá sorglegri tímaeyðsla.

„Indie-leikir“ -Hipsterinn

 Tölvunördaheimurinn er ekki laus við „hipstera“ frekar en kjötheimur. Þessir menn neita að spila tölvuleiki sem gefnir eru út af vondum stórfyrirtækjum eins og EA og eins forðast þeir vinsæla leiki eins og heitan eldinn. World of Warcraft er ömurlegur í hugum þessara manna af þeirri einföldu ástæðu einni að milljónir njóta hans. Sumir leita í nostalgíuna (Ultima Online fyrir Trammel-breytinguna var besti leikur í heimi) en aðrir finna sig í leikjum sem framleiddir eru af litlum fyrirtækjum, sem eru korteri frá því að fara á hausinn. Leikurinn Limbo, sem er svarthvítur leikur þar sem lítill drengur ferðast um heim á barmi heljar í leit að systur sinni, er leikur sem hitti þennan hóp spilara í hjartastað. Börn í lífsháska eru svo „edgy“.

Nánar má lesa um staðalímyndir tölvuleikjunnenda í nýjasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út með Viðskiptablaðinu á dögunum. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.

Stikkorð: Tölvuleikir  • Húmor  • Gaman