*

Hitt og þetta 13. júní 2013

Hvað truflar mest á vinnustöðum?

Árstíminn hefur ekkert með afköst starfsmanna að gera. Það er kjaftaskurinn á næsta borði sem er sökudólgurinn. Og yfirmaðurinn.

Á vorin þegar skólar fara í frí, sólin fer að skína og fólk fer að telja niður í Kanaríferðina væri ekki skrítið ef fólk væri annars hugar í vinnunni. En árstími hefur víst ekkert að gera með afköst á vinnustöðum samkvæmt nýrri könnun.

Könnunin var gerð á ask.com og voru 2060 manns spurð hvaða þrír hlutir á skrifstofunni trufla þau mest við vinnuna.

Mesta truflun á vinnustað reyndist vera kjaftaglaði samstarfsfélaginn eða um 63% svarenda svöruðu því. Um 40% sögðust koma meiru í verk ef samstarfsfélagarnir töluðu minna. Um 24% kvörtuðu undan fundum þar sem of mikið var kjaftað og of litlu komið í verk. Til að minnka klið á vinnustaðnum sögðust 46% nota tölvuforrit til að ræða við fólk og jafnvel samstarfsfólk sem situr á næsta borði.

Flestir eða um 89% svarenda finnst best að vinna á skrifstofunni/vinnustaðnum ef það fær að vinna í einrúmi og næði. Aðeins 29% kjósa að vinna fjarvinnu.

Annað sem vakti athygli í könnuninni og hugsanlega einhverjir yfirmenn ættu að íhuga var eftirfarandi: 38% sögðust frekar vilja vinna leiðinleg verkefni, sitja hjá einhverjum sem smjattar eða ferðast lengri vegalengd á vinnustaðinn en að sitja við hliðina á yfirmanninum. Ástæðan sem oftast var gefin upp var að nálægð við yfirmanninn bælir niður sköpunargleði undirmanns og eykur streitu.

Stikkorð: Vinnustaður  • Afköst  • Streita