*

Menning & listir 2. desember 2012

Hvar finnur maður jólaandann?

Leiksýning Góa og Þrastar er skemmtileg sögustund um leitina að hinum eina sanna jólaanda.

Edda Hermannsdóttir

Leiksýningin Hinn eini sanni jólaandi var frumsýnd í dag. Guðjón Davíð Karlsson, Gói, samdi leikritið en hann leikur sjálfur í sýningunni ásamt Þresti Leó. Sýningin er sett upp sem sögustund og leikhúsgestir taka síðan þátt í að syngja jólalög inn á milli. Krökkunum á sýningunni fannst greinilega ekki leiðinlegt að fá að syngja og ómuðu litlar skærar raddir um allan salinn.

Í sýningu er sögð sagan af Stebba og vangaveltum hans um hinn eina sanna jólaanda. Uppáhaldsleikfangið hans Stebba, hann Lúlli, lifnar við og fer í leiðangur í leit að þessum svokallaða jólaanda. Þröstur og Gói gera þetta á skemmtilegan hátt og leika hin ýmsu hlutverk. Þeir hafa áður sett upp sýningar um Eldfærin og Baunagrasið þar sem uppsetningin hefur verið frábrugðin hefðbundnum sýningum. Þeir búa til heimilislega stemningu og spjalla reglulega við leikhúsgesti. Það er því ekki síður hluti af sýningunni hversu mikið þeir eru þeir sjálfir og það er erfitt að láta sér líka illa við þá. 

Sýningin var í litla salnum og var 40 mínútur. Það sem var frábrugðið við þessa sýningu frá Eldfærunum var að það sátu allir í sætum. Það hefði verið skemmtilegra að leyfa krökkunum að sitja saman á gólfinu eins og stundum er venjan.

Ég gekk út í lok sýningar með eitt tveggja ára gamalt barn og eitt fimm ára barn sem hreinlega ljómuðu. Börnin eru víst bestu dómararnir.

Edda Hermannsdóttir, blaðamaður á Viðskiptablaðinu.