*

Hitt og þetta 11. október 2019

Hvar fór hagfræðin út af sporinu?

Þrjár nýlegar bækur um kapítalisma á breytingaskeiði og hvers vegna hagfræðingar hafa iðulega rangt fyrir sér.

Fimm árum fyrir fjármálahrunið 2008 lýsti hagfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Robert Lucas því yfir að hagfræðin væri búin að leysa vandann á bak við efnahagskreppur.

Lucas er ekki einn um að hafa látið óheppilegar fullyrðingar falla um nýja tíma og glæstar framfarir í hagfræði, korter fyrir fjármálahrun.  Alan Greespan, fyrrum bankastjóri Seðalabanka Bandaríkjanna, og eftirmaður hans í stóli bankastjóra, Ben Bernanke, voru báðir sannfærðir um að engin ástæða væri til þess að hafa áhyggjur af stöðu fjármálakerfisins, alveg þar til mesta hrun í 80 ár reið yfir kerfið. 

Það eru ekki aðeins fullyrðingar stjörnuhagfræðinga fyrir hrun sem hafa orðið kaldhæðninni að bráð heldur hafa spádómar þeirra eftir að höggið reið af ekki síður misst marks. Í desember 2008 spáði Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka, því að laun myndu fljótlega taka að vaxa af miklum krafti. Launþegar bíða enn eftir þessum launaskriði. Greenspan, sem var fullviss um að engin fjármálakreppa væri í aðsigi, spáði stuttu eftir hrunið að verðbólga myndi hvað og hverju fara upp í tveggja stafa tölu.Síðastliðinn febrúar sagði Jay Powell, núverandi Seðlabankastjóri vestra, að það væri „ákveðin ráðgáta“ af hverju laun hefðu ekki hækkað meira síðastliðinn áratug og verðbólga ekki tekið við sér. 

Af hverju hafa hagfræðingar iðulega rangt fyrir sér? Þannig spyr Edward Luce, blaðamaður Financial Times, í umfjöllun um þrjár nýlegar bækur sem allar, beint eða óbeint, reyna að svara spurningu Luce.   

Svarið samkvæmt bókinni Not Working: Where Have all the Good Jobs Gone? eftir David Blanchflower, er að það höfðu ekki allir hagfræðingar rangt fyrir sér. Sumir sáu ljósið þótt meginþorri stéttarinnar hafi dvalið í myrkrinu, t.d. höfundur bókarinnar.

Blanchflower var meðlimur peningastefnunefndar Englandsbanka á árunum fyrir hrun og á þeim tíma hafði nefndin að engu ítrekaðar viðvaranir hans um að kerfið væri við það að bresta. Blanchflower segir að ólíkt félögum sínum í nefndinni, sem byggðu skoðanir sínar á 40 ára gömlum hagfræðimódelum, hafi hann farið út og talað við fólk. Þessa aðferð kallar hann  „Hagfræði þess að fara um“ (e. The economics of walking about). 

Hagfræðimódelin sem Blanchflower vísar til eiga mörg hver rætur sínar að rekja til sjöunda áratugarins, Chicago háskóla og nóbelsverðlaunahafans Milton Friedmans. Bókin The Economists’ Hour eftir Binyamin Appelbaum fjallar um ris og fall svokallaðs Chicago-skóla innan nútíma hagfræði, sem Friedman framar öðrum hafði til vegs og virðingar. Appelbaum vill meina að sól Chicago-skólans hafi gengið til viðar 13. október 2008 þegar forstjórar stærstu banka Bandaríkjanna var stefnt á krísufund í fjármálaráðuneytinu. Dýrustu björgunaraðgerða mannkynssögunnar hafi gert út um orðstír skólans og haft einkunarorð hans, „markaðurinn hefur alltaf rétt fyrir sér“, að engu. Hagfræðingarnir hafi hins vegar ekki enn horfst í augu við þessa staðreynd en Applebaum telur ákveðinn tregbreytanleika í faginu skýra þessa töf og mótþróa stéttarinnar.

En hvað tekur við, nú þegar bæði almenningur og stjórnmálamenn hafa misst trúnna á kennisetningar og spádóma meginstraums hagfræðinga? Mögulegan vonarneista sér greinahöfundur í nýjustu bók hagfræðingsins Branko Milanovic Capitalism, Alone, en Milanovic varð stjörnuhagfræðingur árið 2016 fyrir svokallað fílagraf (e. elephant chart) sem birtist fyrst í bókinni Global Inequality. Niðurstaða Milanovic er að samfélagssáttmálinn sem gerði kapítalismanum kleift að þrífast hafi haldið á meðan hagnaðurinn sem myndaðist í kerfinu hafi farið í fjárfestingar en ekki neyslu og auðsöfnun. Þessi sátt sé rofinn, bæði um alræðiskapítalisma Kínverja og frjálslyndskapítalisma Vesturlanda. Það gildi einu hvort þú búir í New York eða Beijing, tími endurskipulagningar og nýs sáttmála nálgist óðum.    

Stikkorð: Hagfræði  • bækur