*

Menning & listir 13. febrúar 2013

Hvellur: Þeir stóðu vörð um eignarréttinn

Heimildarmyndin Hvellur setur hugtökin umhverfis- og náttúruvernd í allt annað samhengi en við höfum vanist síðustu ár.

Gísli Freyr Valdórsson

Heimildarmyndin Hvellur var nýlega frumsýnd í Bíó Paradís. Hér er á ferðinni nokkuð einstök heimildarmynd þar sem fram koma rík sjónarmið um náttúruvernd, eignarréttinn og það sem kalla má activisma.

Hvellur fjallar um sérstakan atburð í Íslandssögunni, þegar bændur í Mývatnssveit fóru í skjóli nætur og sprengdu upp stíflu í Miðkvísl við Mývatnsósa þann 25. ágúst 1970. Notað var dínamít til að sprengja stífluna. Í kynningu frá framleiðanda segir að málið hafi verið fyrsta málið sem varð að dómsmáli sem varðaði náttúruvernd á Íslandi. Samstaðan brást aldrei.113 bændur lýstu verkinu á hendur sér og 65 voru ákærðir. Þeir játuðu allir sök en upplýstu aldrei hver það var sem hafði sprengt. Þessi atburður er stundum nefndur „eina íslenska hryðjuverkið” en bændurnir hafa ekki sagt sína sögu fyrr en nú.

Aðdragandi málsins er 60 mw stífla sem Laxárvirkjun hugðist byggja í Laxá með tilheyrandi vatnaflutningum á svæðinu. Eins og gefur að skilja mótmæltu bændurnir þessum virkjunaráformum sem þeir töldu stofna laxinum í ánni í hættu og skaða viðkvæmt lífríki Laxár og Mývatns, ásamt vatnsborðshækkunum sem hefðu lagt Laxárdal í eyði. Sjónarmið þeirra voru virt að vettugi og hafist var handa við að reisa stífluna gegn vilja landeigenda. Eftir að hafa ítrekað leitað lagalega lausna á málinu, og meðal annars reynt að fá lögbann á virkjunina, brugðu þeir á það ráð að sprengja stífluna í skjóli nætur. Með sprengingunni og dómsmálinu sem því fylgdi var fallið var frá fyrri virkjunarhugmyndum í Laxá og lítil rennslisvirkjun byggð í samráði við bændur. Þessi atburður er talinn marka upphaf náttúruverndar á Íslandi.

Hafði ekkert með pólitík að gera

Myndin er merkileg fyrir margar sakir. Hún er fagmannlega unnin, upplýsandi og skemmtileg. Aðeins er stuðst við sjónarmið þeirra sem voru á móti virkjuninni en það er væntanlega ákvörðun framleiðanda. Það hefði þó verið gaman að fá fram sjónarmið þeirra sem að virkjuninni stóðu, þó ekki væri nema upplýsinganna vegna. Sjálfsagt hefði sjónarið þeirra fengið litla samúð hvort eð er. Þetta segi ég með þeim fyrirvara að væntanlega eru flestir þeirra fallnir frá (margir aðgerðasinnana voru ungir að árum og eru því flestir til frásagnar), en það hefði verið hægt að rifja upp helstu rök þeirra þó ekki væri nema í stuttu máli.

Það sem vegur þyngst hér er að með virkjuninni var gengið harkalega á eignarrétt bændanna sem hlut áttu að máli. Virkjunin þjónaði ekki hagsmunum þeirra, þvert á móti því orkuna átti að nýta á Akureyri, auk þess sem reisa átti virkjunina á landi í einkaeigu. Þess utan hefði virkjunin sem fyrr segir haft umtalsverð áhrif á lífríki Laxár og Mývatns auk þess sem margar jarðir – í einkaeigu – hefðu farið undir vatn.

Það þarf þó að hafa í huga að aðgerðir bændanna eiga ekkert skylt með mótmælum aðgerðarsinna við Kárahnjúkavirkjun, svo tekið sé nærtækt dæmi. Afstaða þeirra hafði, að mínu mati, ekkert með pólitík að gera eða almennt viðhorf til virkjana og orkunýtingar, ólíkt aðgerðarsinnunum við Kárahnjúkavirkjun sem voru í raun að mótmæla kapítalismanum. Með sprengingunni við Mývatnsósa voru menn að verja sitt eigið land og náttúruna sem því fylgdi, sem að öllu óbreyttu hefði orðið fyrir umtalsverðum skemmdum.

Heimildarmyndin Hvellur lýsir svo ekki verður um það villst að besta náttúruverndin felst í eignarréttinum, að náttúran eigi sér eigendur og um leið verndara. Þegar öll ráð þrjóta og landeigendur horfa fram á að unnar verði skemmdir á landi þeirra, bregðast þeir eðlilega við.

Viðmælendur upplýsandi og hnyttnir

Sem fyrr segir er myndin fagmannlega unnin. Áhorfendur er settir vel inn í atburðarrásina, viðmælendur (sem allir tengjast aðgerðinni með einum eða öðrum hætti) fá svigrúm til að bæði segja söguna og lýsa skoðunum sínum og tilfinningum gagnvart málinu. Frásagnirnar eru skemmtilegar og lýsingar viðmælanda eru bæði upplýsandi og á köflum hnyttnar. Það er mikið stuðst við gamalt myndefni sem gerir myndina enn áhugaverðari, skemmtilegri og upplýsandi.

Það er full ástæða til að mæla með Hvell. Hún setur hugtökin umhverfis- og náttúruvernd í allt annað samhengi en við höfum vanist í orðræðunni síðustu ár. Myndin fær fjórar stjörnur af fimm.

 

Hér má sjá stiklu úr myndinni.

Bændur og landeigendur úr Laxárdal og nærliggjandi svæðum undirbúa sprenginguna.

Miðkvísl eftir að stíflan hafði verið sprengd.

Það er skemmtileg saga á bakvið þetta skilti. Það var fest upp á vörubíl þegar sveitungar héldu til Akureyrar til að mótmæla virkjuninni. Hins vegar gleymdist að bora göt í hornin á skiltinu þannig að einn bóndinn greip lítill riffil il að skjóta göt á skilti þannig að hægt væri að festa það á bílinn.