*

Tölvur & tækni 14. september 2014

Hvenær kemur iPhone 6?

Líklegt þykir að nýjustu símarnir frá Apple lendi á skerinu í kringum miðjan október.

Síminn og Vodafone eru þegar farin að taka við pöntunum á nýjum iPhone-símum sem Apple kynnti til sögunnar í vikunni. Símarnir munu bera þau rökréttu nöfn iPhone 6, sem tekur við af iPhone 5s, og iPhone 6 Plus.

Flestar væntingar áhugafólks um tölvur og tæki undir merkjumApple rættust þegar Tim Cook, forstjóri Apple, og aðrir lykilstjórnendur Apple kynntu nýju tækin. iPhone 6 verður stærri en iPhone 5s eða með 4,7 tommu skjá í stað 4 tommu skjá. iPhone 6 Plus verður öllu stærri og skartar 5,5 tommu skjá og verður síminn sambærilegur að stærð og nýjustu símarnir frá Samsung og LG og fleiri fyrirtækjum.

Símarnir verða fáanlegir í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ástralíu, Hong Kong, Síngapúr og Japan 19. september næstkomandi. Ekki liggur fyrir hvenær þeir fást hér á landi en líklegt þykir að það verði ekki fyrr en um miðjan október.

Stikkorð: Apple  • iPhone  • iPhone 6  • iPhone 6 Plus