*

Sport & peningar 7. janúar 2005

Hvenær verður kaupverð Zidane jafnað?

Er tími stórsamninga í knattspyrnuheiminum liðinn eða erum við bara að upplifa lognið á undan storminum? Eftir nokkra ára tímabil þar sem söluverð leikmanna virtist stöðugt ná nýjum hæðum er eins og heldur hafi slaknað á. Var salan á Zidane toppurinn eða eigum við eftir að sjá enn hærri upphæðir í framtíðinni? Það er margt sem bendir til þess að heldur hafi slaknað á eftir það óðagot sem ríkti fram að sölunni á Zidane þegar tölurnar virtust hækka með hverju árinu. Á tíma virtust félögin, með Real Madríd í broddi fylkingar, stöðugt stefna hærra. Að vísu má segja að kaupæði þeirra Madrídinga hafi skapast af því sérkennilega pólitíska ástandi sem ríkti innan félagsins þar sem forsetaefni þess kepptust við yfirbjóða hvorn annan í von um stólinn. Því var haldið fram að þeir hefðu verið tilbúnir að teygja sig allt upp í 70 milljónir punda með Zidane en það fæst nú líklega seint staðfest.

Þó ekki hafi verið deilt um gæði Zidane sem knattspyrnumanns þá er vissulega spurning hvort nokkur leikmaður standi undir slíku verði. Liðið náði vissulega að landa helstu titlum knattspyrnuheimsins en nú er eins og allar stjörnur liðsins séu útbrunnar og árangur liðsins það sem af er þessu tímabili er ekki í neinu samhengi við getu þess. Því er ekki nema vona að menn velti því því fyrir sér hvort skammt sé í næsta kaupæði þeirra Madrídinga ef þeir ráðast á annað borð í endurskipulagningu liðsins. Eru Zidane, Carlos og Fígó á leið í burtu?

Nýtt kaupæði framundan hjá Real?

Þar horfa menn til helstu stórstjarna knattspyrnuheimsins en hinn tvítugi sóknarmaður brasilíska liðsins Santos, Robinho, hafnaði nýlega samningstilboðum frá Chelsea og portúgalska liðinu Benfica. Ef marka má blaðafregnir hefur Robinho aðeins áhuga á að ganga til liðs við Real Madrid og hefur því hafnað öðrum liðum. Ekkert hefur verið gefið upp um áhuga þeirra Madrídinga en þeir hafa yfirleitt ekki keypt leikmenn fyrr en þeir hafa sannað sig hjá öðrum liðum áður. Robinho þykir einhver hæfileikaríkasti knattspyrnumaður heims um þessar mundir og sjálfsagt mun hann einhvern daginn leika í hvítum búningi þeirra Madrídinga. En kannski ekki strax.

En hvað um það -- Robinho er ekki eini leikmaðurinn sem Real Madrid eru á eftir þessa dagana.  Þeir hyggjast einnig bjóða í brasilíska sóknarmanninn hjá Inter Adriano og miðjumann Liverpool, Steven Gerrard, ef marka má flugufréttir fjölmiðla.  Einnig er Patrick Viera hjá Arsenal orðaður við Real Madríd enn og aftur en þessi hæst launaði knattspyrnumaður enskrar knattspyrnu (sbr. frétt annars staðar á síðunni) hefur verið á innkaupalista þeirra Madrídinga um skeið. Ef það gengur eftir er líklegt talið að Thierry Henry fari þangað líka.

Síðasta kaupæði knattspyrnunnar var stutt miklum væntingum um tekuöflun liðanna í framtíðinni og ljóst að ekki hefur allt gengið eftir eins og menn væntu. Nokkur félög hafa þó náð ágætis tökum á fjármálum sínum og ljóst að Mestaradeildin er að skila félögunum ágætum tekjum.

Byggt á World Soccer