*

Hitt og þetta 15. desember 2013

Hvernig áramótatýpa ert þú?

Um áramótin er áhugavert að staldra við og fara í smá sjálfskoðun.

Lára Björg Björnsdóttir

Streyma angurvær tár niður kinnarnar á þér þegar klukkan slær tólf? Eða er það meira þinn stíll að standa úti á gangstétt á miðnætti með hlíðargleraugu á nefinu og kveikja þar í ferðatösku fullri af dínamít sem bundin er við ljósastaur? Skoðum nokkrar hressar áramótatýpur.

Sprengjubrjálæðingurinn

Sprengjubrjálæðingnum finnst aldrei of snemmt að hurðasprengjuvæða heimilið fyrir áramótin. Á þriðja í jólum eru litlu gleðigjafarnir bundnir við alla húna í húsinu, þar með talið í bílskúrnum, þvottahúsinu, geymslunni, á háaloftinu og í bílnum. Á gamlársdag er farið í kraftgallann fyrir hádegi, hjálmur settur á börnin og gæludýrin og síðan er djöflast úti í garði og ekki er hætt fyrr en gígur er kominn ofan í stjúpubeðið og nágrannarnir búnir að hringja í ítrekað í 112.

Tilfinningahrúgan

Áramótin eru tímamót og þá þykir iðulega upplagt og jafnvel viðeigandi að gefa tilfinningunum lausan tauminn. Tilfinningahrúgan hikar ekki við að gráta þegar hún hittir fólk á förnum vegi á milli jóla og nýárs. Hún lætur fólk vita í óspurðum að hún verði nú alltaf svo meyr á þessum tímamótum og síðan er farið út í nákvæmar lýsingar á því hvernig hún hreinlega grætur eiginlega stöðugt í heila viku. Þetta er týpan sem getur ekki hitt fólk á förnum vegi án þess að knúsa það fast, klappa því á kinnina og raula svo undir þýðingarmiklu augnaráði: „There are places I remember“.

Áramótaheitadólgurinn

Áramótaheitadólgurinn gengur um áramótapartýið með reglustiku og lemur í puttana á fólki sem teygir sig í sörurnar eftir miðnætti ef áramótaheitið var: „Minni sykur því það er svo meiriháttar“. Þetta er týpan sem engu gleymir og hengir sig í smáatriði eins og loforð um bættan lifnað og heilsu. Stundum stingur áramótaheitadólgurinn upp á því að fólk opinberi heit sín við matarborðið á gamlárskvöld með því að standa á bak við stóla sína og söngla heitin hátt og snjallt. Sem er auðvitað bara stórkostlegt.

Skaups-fríkið

Áramótaskaupsaðdáandinn er búinn að bíða eftir nýju skaupi frá því 2. janúar. Þetta er manneskjan sem er ennþá að hlæja að syngjandi kindum úr skaupinu 1985 og getur farið með heilu og hálfu atriðin orðrétt úr öllum skaupum síðan. Það getur verið upplifun að sitja við hliðina á skaups-aðdáandanum yfir skaupinu því hann öskrar á alla þá sem leyfa sér að anda aðeins of hátt yfir þættinum og hlær að hverjum einasta brandara. Alltaf. Á hverju einasta ári.

Skaups-skröggurinn

Svo er það týpan sem er of góð fyrir áramótaskaupið og finnst þetta „aldrei-neitt-fyndið!” Það er afar óþægilegt að sitja við hliðina á „á-þetta-að-vera-fyndið!?” týpunni yfir skaupinu því þeir sem leyfa sér að hlæja upphátt yfir einhverju uppskera hneykslunaraugnaráð og háðsglósur sem enginn á að þurfa að þola á hátíðum.

Stikkorð: Vonbrigði  • Gleði  • Örvænting  • Jólaspól