*

Hitt og þetta 27. nóvember 2019

Hvernig gefur maður 1.200 milljarða?

Enn er óljóst hvernig fara á að því að gefa helming auðæfa Paul Allen, stofnanda Microsoft, sem lést á síðasta ári.

Í kvikmyndinni Brewster's Million frá árinu 1985 leikur Richard Pryor, mann sem mun erfa ríkan en fjarskyldan frænda sinn af 300 milljónum dollara, takist honum að eyða 30 milljónum dollara á einum mánuði. Það reynist persónu Pryor mun erfiðara en ætla mætti að gefa milljónirnar 30.

Nú stendur Jody Allen, systir auðkýfingsins Paul Allen, sem lést á síðasta ári, fyrir sambærilegum vanda, en þó á mun stærri skala. Paul Allen, einn stofnenda Microsoft, var meðal 50 ríkustu manna heims þegar hann lést á síðasta ári 65 ára að aldri. Auður hans var metinn á 20 milljarða dollara, um 2.400 milljarða króna. Hann hafði heitið því að gefa meirihluta auðæfa sinna til góðgerðamála, að minnsta kosti tíu milljarða dollara, um 1.200 milljarða króna. 

Allen átti meðal annars NFL liðið Seattle Seahawks, NBA liðið Portland Trail Blazers, risasnekkjuna Octapus sem hefur reglulega verið við Íslandsstrendur og er metin á um 40 milljarða króna, auk myndarlegs fasteignasafns og hluta í fjölmörgum tæknifyrirtækjum.

Í umfjöllun Seattle Times er greint frá því að til standi að flýta sér hægt að ganga frá dánarbúinu. Ljóst er að eignir Allen verði ekki seldar á einu augabragði. Mörg ár muni taka að vinda ofan af eignasafninu. Vulcan, fjárfestingafélag systkinanna, opnaði nýlega skrifstofu í Singapúr og hefur haldið áfram að fjárfesta í fasteignum og tæknifyrirtækjum. Þó er búið að selja einhverjar eignir, til dæmis tvo golfvelli. 

Paul hafði þegar gefið tvo milljarða dollara á meðan hann lifði. Standa á við þau fyrirheit sem Paul gaf en ekki liggur fyrir nákvæmlega með hvaða hætti það verður gert. Renni fjárhæðin öll í eitt félag yrði það sjötta stærsta góðgerðafélag í Bandaríkjunum.