*

Hitt og þetta 6. mars 2013

Hvernig við tókumst á við veðrið í gamla daga

Hvernig var þetta aftur í gamla daga þegar snjóaði á Íslandi?

Lára Björg Björnsdóttir

 Í dag þegar Reykjavík fennir í kaf og allar helstu umferðaræðar eru stíflaðar er vert að rifja upp hvernig við tókumst á við veðrið í gamla daga. Viðskiptablaðið hringdi rúnt og bað fólk, sem kúrir inni í dag eftir tilmælum almannavarna, að minnast þess hvernig það fór að í gamla daga þegar veðrið var tryllt.

„Við hoppuðum fram af húsþökum og niður í skaflana á leiðinni í skólasundið. Það var aldrei frí vegna veðurs á Selfossi. Við vorum send af stað í hvaða veðri sem var." - Karlmaður, fæddur 1971 frá Selfossi.

„Ég man að mamma lét mig fá skíðagleraugu þegar ég gekk af stað í skólann, svo ég sæi bílana betur. Stundum gekk hún með mér ef vindstigin voru komin í tveggja stafa tölu. Þá var hún með skíðagleraugun á sér og vafði trefil utan um höfuðið á mér." Kona, fædd 1977 úr Arbænum.

„Þegar ég var lítil var svona veður eins og er í dag, vikulega. Við vorum bara miklu harðari í gamla daga. Nú leggst þjóðfélagið á hliðina út af því sem við kölluðum smá fjúk. Maður fór alltaf í skólann, alltaf labbandi enda áttu fáir foreldrar bíla yfirhöfuð. Og ef ég kvartaði þá sagði gamla fólkið við mig "voðalega er þessi æska orðin lin í dag, þetta var miklu verra í gamla daga." Hvað hefði þetta gamla fólk sagt við ungdóminn í dag sem er borinn inn og út úr bílum?" - Kona, fædd 1950 í Vesturbænum.

„Maður var bara alltaf úti að leika sér í vondu veðri. Það var skemmtilegast. Og síðan máttum við ekki hanga inni allan daginn. Við byggðum snjóhús og fórum inn í þau með kerti. Maður var úti þangað til maður gat ekki hreyft tærnar lengur." Karlmaður, fæddur 1980 frá Akureyri.

„Manni var hent í skólann. Ég man eftir einum degi þegar það var svell á götum og gangstígum og ofsaveður og rigning. Ég var látinn labba í skólann þann dag, 11 ára gamall. Svo bara flaug maður á hausinn á fimm metra fresti, alla leiðina. Ég var blautur í gegn þegar ég komst loks í skólann. Ég man að ég var ekki sáttur við foreldra mína þann daginn." Karlmaður, fæddur 1979 úr Mosfellsbænum.

„Ég man að ég spurði mömmu einu sinni þegar úti var blindbylur: „Í hvaða átt er skólinn?" Hún benti og skellti síðan hurðinni. Það var ekkert verið að vorkenna börnum í þá daga, við áttum bara að klára hlutina." - Karlmaður, fæddur 1949 í Norðurmýrinni í Reykjavík.