*

Hitt og þetta 30. mars 2013

Hvar er öruggast að sitja í flugvél?

Hvar í flugvélinni er öruggasti staðurinn ef svo ólíklega vill til að flugvélin hrapar? Sjónvarpsstöðin Channel 4 telur sig vita svarið.

Öruggasti staðurinn í flugvél sem brotlendir er aftasti hlutinn. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem breska sjónvarpsstöðin Channel 4 stóð fyrir.

Channel 4 er að framleiða heimildarmynd, The Crash, sem á að komast til botns í því hvaða staður í flugvél er lífvænlegastur komi eitthvað upp á.

Rannsakendur settu allskyns nema, myndavélar og gínur um borð í Boeing 727. Vélin var síðan látin brotlenda í Sanoran eyðimörkinni í Mexíkó. Og niðurstöðurnar eru ekki góðar fyrir farþega á fyrsta farrými.

Ellefu fremstu sætaraðirnar brotnuðu frá flugvélinni við brotlendinguna. Aftari sætaraðirnar hlutu helmingi minna högg við lendinguna en fremstu sætaraðirnar. Enginn farþega fyrsta farrýmis hefðu komist lífs af en lífslíkur hinna um borð voru 78%.

Talsmenn Boeing gera lítið úr þessum niðurstöðum og segja ekki mikið að marka slík próf.

Og vert er að hafa í huga að líkurnar á að lenda í svo alvarlegu flugslysi eru einn á móti 4,7 milljónum. En ef fólk er í vafa ætti það að spara pening og sitja aftar í vélinni. Og sannast þá hið fornkveðna: Hinir síðustu verða fyrstir.