*

Bílar 11. mars 2021

Hyundai kynnir nýjan i20

Hyundai i20 hefur tvívegis unnið Gullna stýrið hjá Auto Bild, nú síðast í nóvember í flokki bíla sem kosta undir 25 þúsund evrur á Evrópumarkaði.

Nýr og endurbættur Hyundai i20 verður kynntur til leiks hér á landi næstkomandi laugardag. Þessi netti fólksbíll frá suður-kóreska bílaframleiðandanum hefur verið vinsæll en hann kom fyrst á markað árið 2008.

Tæknilega er nýr Hyundai i20 búinn meiri og betri þæginda- og öryggisbúnaði en áður og ennfremur sé miðað við sambærilega bíla af öðrum tegundum í sama stærðar- og verðflokki. Þar á meðal eru aukin öryggiskerfi sem styðja á margvíslegan hátt við öruggari akstur í umferðinni en veita einnig þægilega og örugga aðstoð þegar leggja þarf bílnum í stæði. 

Einnig má nefna nýjan rúmlega 10“ upplýsingasnertiskjá í farþegarýminu, þráðlausa símahleðslu, lykillaust aðgengi, aukið útsýni úr farþegarýminu, val um tvílitar útgáfur bílsins og fleira sem dómnefnd Auto Bild nefndi meðal annars sem dæmi um þá miklu alúð við smáatriðin sem Hyundai hefði lagt í hönnun hins nýja i20.

Hyundai i20 hefur tvívegis unnið Gullna stýrið hjá Auto Bild, nú síðast í nóvember síðastliðnum í flokki bíla sem kosta undir 25 þúsund evrur á Evrópumarkaði. Undir þeim mörkum er nýr i20 á Íslandi því Hyundai í Garðabænum býður beinskiptan i20 frá 2.690.000 krónum og sjálfskiptan frá 3.090.000 krónum. Hyundai á Íslandi kynnir nýja bílinn til leiks næstkomandi laugardag milli kl. 12 og 16.

Stikkorð: Auto Bild  • Hyundai i20