*

Bílar 18. apríl 2021

Í blindbyl á Langjökli

Tobías Sveinbjörnsson framkvæmdastjóri Toppbíla rifjar upp eftirminnilega jeppaferð á Langjökul.

Róbert Róbertsson

Það hefur verið mikið að gera í sölu á notuðum bílum. Síðastliðið ár var sennilega metár í bílasölu á notuðum bílum á landsvísu. Það var metsöluár hjá okkur í Toppbílum. Þar spilar stærst inn í Covid ástandið. Fólk hefur notað peningana í að kaupa bíla og farartæki og ferðast innanlands í stað þess að fara til útlanda enda flestallir fastir hér heima út af ástandinu.

Fyrstu þrír mánuðir ársins eru að fara mjög vel af stað og á pari við það sem maður átti von á og jafnvel betur. Hjá okkur var febrúar mánuður sá stærsti sem ég man eftir. Mars er búinn að vera örlítið rólegri en ég hef trú á að vorið verði mjög gott í sölu,” segir Tobías, eða Tobbi eins og hann yfirleitt kallaður.

Mikið sótt í bíla sem geta dregið
Hann hefur unnið á bílasölunni Toppbílum síðan 2007. Hann byrjaði sem sölumaður og var ráðinn sölustjóri Toppbíla 2011 og síðar framkvæmdastjóri.

,,Fólk er mikið að kaupa jeppa sem geta dregið eftirvagna. Það eru allir að horfa til ferðalaga innanlands og þá oftast með hjólhýsi eða fellihýsi í eftirdragi. Og þá eru þessir stóru bílar auðvitað vinsælastir í slíkan akstur. Það er orðið lítið eftir af þessum stóru jeppum hjá okkur og þetta er nokkuð sérstakt ástand. Það er setið um þessa bíla um leið og þeir koma á planið hjá okkur. Í mars voru þónokkur dæmi um að bílar seldust á sama sólarhring og þeir komu í sölu til okkar. Þetta á þá helst við um jeppa sem eru keyrðir um 150 þúsund eða minna. Það er alveg ótrúlega góð sala í þessum stóru bílum.

Svaðilför á Langjökul
Spurður um eftirminnilegu bílferðina svarar hann að bragði: ,,Ein eftirminnilegasta ökuferðin var jeppaferð sem átti að verða skottúr upp á Langjökul en endaði í mikilli svaðilför. Við vorum nokkur í ferðinni og ætluðum rétt að skjótast upp á Langjökul á 38 tommu Land Cruiser sem ég hafði eignast. Við ætluðum bara í hálfs dags ferð en þetta fór á annan veg en við höfðum ætlað okkur. Við rétt komumst upp á jökulinn í blindbyl og það sást aldrei út um rúðurnar.

Ég veit eiginlega ekki hvernig við komust upp og síðan niður aftur en ferðin sem átti að vera skottúr tók alls 12 klukkustundir. Við festumst nokkrum sinnum á leiðinni og þurftum að moka okkur út. Við vorum illa búin enda átti þetta ekki að vera neitt vesen en við höfðum ekki skoðað neina veðurspá þannig að það má segja að við höfum tekið kæruleysið á þetta enda ungir og ósigrandi. Mér er minnisstætt að eftir mokstur og djöfulgang í snjó og kulda þá gat ég ekki sest inn í bílinn því buxurnar voru frosnar utan á mér. Buxurnar stóðu sjálfar,” segir hann og glottir.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.