*

Bílar 29. september 2015

Í harðri samkeppni við þýsku risana

Nýr Volvo XC90 er ekki einungis stærri en áður heldur er mun meira í hann lagt á alla vegu.

Guðjón Guðmundsson

Volvo XC90 hefur farið upp um heilan flokk. XC90, sem kom fyrst á markað 2002 og hefur selst með ágætum hér á landi, er ekki einungis stærri en áður heldur mun meira í hann lagt á alla vegu. Langþráð kynslóðaskipti sem urðu á honum seint á síðasta ári færa hann í flokk lúxusjeppa þar sem fyrir eru þýsku risarnir Mercedes-Benz ML, Audi Q7 og BMW X5. Það hafði greinilega verið beðið eftir breytingu á bílnum því nú þegar hafa selst um 50 bílar af þessari gerð. Bíllinn er framleiddur í Svíþjóð.

Hérlendis er XC90 boðinn með 2ja lítra forþjöppudísilvél, 225 hestafla, og í þremur búnaðarútfærslum, þ.e. Momentum, R-Design og Inscription, allt sjö sæta bílar. Við prófuðum hann í síðastnefndu gerðinni. Um áramót er bíllinn væntanlegur með tvinnaflrás og hafa þegar um 20 slíkir vagnar selst.

XC90 er algjörlega nýr bíll frá grunni á nýjum undirvagni og með gjörbreyttri útlitshönnun. Framendinn er mun aðsópsmeiri en áður með stóru grilli og fínlegum LED framljósum. Bíllinn virkar allur mun verklegri og stærri, sem hann og er og munar þar um tæpa 15 cm. Það var sannarlega kominn tími á breytingar og þær virðast að öllu leyti hafa gengið upp.

Innanrýmið eitt hið vandaðasta

Innanrýmið í Volvo XC90 er eitt hið vandaðasta sem fyrirfinnst í þessum stærðarflokki. Stýringar á margvíslegum búnaði fara fram i gegnum áberandi 12,3 tommu stórum snertiskjá á miðju mælaborðinu og kosturinn við þetta fyrirkomulag er hve framsetningin er skýr og lógísk. Skjárinn virkar eins og spjaldtölva með flettiaðgerðum. Á skjánum má til að mynda stýra stillingum á framsætum sem auk halla á sætisbaki og setu bjóða upp mjóbaksstuðning, lengingu á setunni og færslu fram og aftur. Ökumannssætið styður fullkomlega við líkamann og upplifunin er eins og vera skorðaður af öryggi undir stýri.

Nánar er fjallað um málið í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð

Stikkorð: Volvo  • Volvo XC90