*

Bílar 5. febrúar 2017

Í hjólastólum undir stýri

Þeir Hallgrímur Einarsson, Guðjón Reykdal Óskarsson og Hjálmar Þorvaldsson eru allir bundnir við hjólastól en láta hreyfihömlunina ekki aftra sér.

Róbert Róbertsson

V-Class bílarnir eru mjög mikið breyttir eftir þörfum viðkomandi ökumanna sem eru í hjólastólum sínum þegar þeir aka bílunum. Búið er að setja lyftu utan á bílana sem sér um að lyfta ökumönnum upp í þá. Hægt er að færa hið hefðbundna ökumannssæti og renna því til hliðar. Búið er að setja tvo stýripinna hvorn sínu megin við stýrið en ökumennirnir nota stýripinnana til að stýra bínum. Þar er m.a. að finna bensíngjöf og bremsur. Öryggismiðstöðin sá um að framkvæma allar breytingar á bílunum og koma fyrir hjálpartækjum í þeim fyrir ökumennina.

Orðinn góður að aka með stýripinnunum

Það var mikil gleði og ánægja hjá Hallgrími, Guðjóni og Hjálmari á dögunum þegar þeir fengu nýju bílana afhenda í húsakynnum atvinnubíladeildar bílaumboðsins Öskju á dögunum. „Þetta er stór breyting fyrir okkur sem erum hreyfihamlaðir og bundnir í hjólastól að geta verið á fólksbílum eins og annað fólk. Þetta gefur mér mikið ferðafrelsi að geta gert hluti sem öðrum finnst sjálfsagðir, þ.e. að komast leiðar sinnar án þess að vera öðrum háður,“ segir Hallgrímur en hann fékk fyrsta breytta bílinn sem kom á markað hérlendis fyrir tæpum 15 árum. Sá bíll var af gerðinni Mercedes Benz Vito. Hann er því orðinn reynlsumikill ökumaður.

,,Það er gríðarlega mikill munur á þessum tveimur Benzum. Hinn var fínn en hann var orðinn gamall. Ég ók honum alls 170 þúsund kílómetra. Þessi nýi V-Class er alger lúxuskerra og alveg draumur að keyra. Ég er orð- inn góður að aka með stýripinnunum. Það venst mjög fljótt. Þetta er dálítið eins og að vera með stýripinna að spila tölvuleik. Nema þú hefur bara eitt líf,” segir Hallgrímur og brosir.

Lítið heima við á næstunni 

„Ég er búinn að taka svolítinn rúnt á þessum nýja bíl og hann er alveg frábær í alla staði. Ég ók honum norður í Skagafjörð og til baka. Ég gæti ekki verið ánægðari með bílinn,“ segir Hallgrímur enn fremur. Hjálmar er nýbúinn að taka bílpróf og þetta er fyrsti bíllinn hans. „Ég hlakka rosalega mikið til að fara að keyra. Mér list rosalega vel á þennan nýja V-Class. Það er ekki amalegt að fá Mercedes-Benz sem fyrsta bíl. Ég verð örugglega lítið heima við á næstunni. Ég verð bara úti að keyra,“ segir hann og brosir út að eyrum.

Guðjón er einnig himinlifandi með nýja bílinn. „Þetta er annar bíllinn minn en ég var áður á Mercedes-Benz Viano. Þessi er flottari og auðvitað glænýr með öllu því nýjasta sem völ er á. Þetta eru gríðarlegar breytingar frá þeim gamla,” segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Askja  • Benz  • bílar  • Hreyfihömlun