*

Bílar 8. apríl 2021

Í hundrað á innan við 3 sekúndum

Framtíðarbíllinn MG Cyperster verður hreinn rafbíl sem nær 500 km drægni á einni hleðslu.

Nýr hugmyndabíll frá MG hefur litið dagsins ljós alla vega á teikniborðinu hjá bílaframleiðandanum. Fyrsta myndin hefur birst af þessum framtíðarbíl sem nefnist MG Cyperster.

Hér er um að ræða tveggja sæta sportbíl sem mun örugglega vekja athygli ef og þegar hann fer í framleiðslu. MG segir stefnuna að frumsýna hugmyndabílinn á bílasýningunni í Shanghæ síðla árs. Ekki er vitað mikið um bílinn nema að um er að ræða hreinan rafbíl og samkvæmt upplýsingum frá MG á hann að ná 500 km drægni á einni hleðslu eins og Tesla. MG Cyperster á að ná 100 km hraða á innan við 3 sekúndum þannig að hann verður gríðarlega snöggur upp. 

Bíllinn er sagður vera undir áhrifum í hönnun frá gamla góða MG B Roadster sem var fyrst kynntur árið 1962. Sá bíll var klassískur sportbíll og einn mikilvægasti bíll MG í þá daga þegar merkið var albreskt. Í dag er það í eigu Kínverja en með tenginu við Bretland engu að síður. Þannig sést breski fáninn Union Jack í afturljósunum á þessum hugmyndabíl eins og hjá Mini. Að öðru leyti er MG Cyperster mjög framúrstefnulegur í hönnun og mikið af LED ljósum að framan og aftan.  

Stikkorð: MG  • MG Cyperster