*

Bílar 5. september 2013

Í hundraðið á 2,8 sekúndum

Nýr Porsche verður frumsýndur í Frankfurt í næstu viku.

Porsche 918 Spyder verður frumsýndur á bílasýningunni í Frankfurt sem hefst í næstu viku.Um er að ræða afar spennandi tveggja sæta bíl sem er að stærstum hluta smíðaður úr koltrefjaefnum og er búinn hybrid tækninni.

Þýski sportbílaframleiðandinn Porsche heldur því fram að þetta sé heimsins hraðskreiðasta tvinnbíll. Auk 4,6 lítra V8 vélar sem skilar 608 hestöflum eru rafmótorar einnig í aflrásinni sem skila 154 hestöflum til afturöxuls og 127 í framöxul. Heildarafl bílsins er því hvorki minna né meira en 887 hestöfl eða 661 kílóvött. Þetta er gríðarlegt afli og skilar bílnum úr kyrrstöðu í hundraðið á 2,8 sekúndum. Hámarkshraðinn er tæplega 320 km. 

Vélin er staðsett í miðjum bílnum beint fyrir aftan sætin tvö. Þessi magnaða græja mun án efa laða gesti að á bílasýningunni í Frankfurt.

Stikkorð: Porsche