*

Matur og vín 16. janúar 2013

Át í janúar

Jólin eru að baki og margir landsmenn líklega svangir eftir að hafa svelt sig yfir svignum hlaðborðunum.

Lára Björg Björnsdóttir

Enda boðuðu tálgaðar líkamsræktardrottningar sitt árlega jólaguðspjall: „Ekkert reykt kjöt á aðventunni“, „Í kjólinn fyrir jólin“, „10 armbeygjur eftir hvern konfektmola“ og „Passaðu að drekka mikið vatn með hangikjötsflísinni sem þú leyfir þér.“

Nema hvað, nú er þessum áróðri vonandi lokið í bili, að minnsta kosti næstu 11 mánuðina, og því rétt að benda á nokkrar uppskriftir sem gætu gert janúar ögn bærilegri:

Kjúklingasalat svanga mannsins:

5 egg

3 kjúklingabringur

1 pakki beikon

1 papríka

1 pakki hvítt pasta

1 stk parmesan ostur

Harðsjóðið eggin. Sjóðið pasta. Steikið beikon. Steikið kjúklingabringur upp úr salti og pipar og ólívuolíu (má marínera ef nenna er fyrir slíku). Skerið niður papríku. Rífið parmesan ostinn. Skerið eggin niður og hrærið saman við papríku og pasta. Brytjið beikon út í og skerið kjúklinginn í strimla og setjið saman við. Stráið rifnum parmesan yfir og borðið upp í sófa, helst upp úr stórri skál. Hvar er mæjónesið? Kunna einhverjir að spyrja. Það er að sjálfsögðu í boði að hræra fallegri mæjónesslettu, og jafnvel smá dijon sinnepi, saman við dýrðina.

Ef þið nennið ekki svona eldamennsku (þetta er alveg smá vesen) má einnig gæða sér á eftirfarandi númerum sem of margir eru búnir að gleyma eða halda að sé bannað að innbyrða samkvæmt manneldismarkmiðum fitubrennsluherdeildar Íslands sem þjáist nær öll af (ímynduðu) brauðóþoli:

Samloka með hnetusmjöri og sultu (helst hvítt brauð ef hægt er).

Samloka með skinku og osti (ef þú átt ekki 26% ost þá tekur því ekki að útbúa þessa dásemd, auk þess sem þú ættir hreinlega að endurskoða líf þitt).

Samloka með mæjónesi og tómötum.

Samloka með túnfisksalati (hér er lykilatriði að salatið sé þykkara en brauðsneiðarnar).

Verði ykkur að góðu.