*

Ferðalög 6. október 2012

Í lögreglufylgd yfir Gilsfjarðarbrú

Andrés Magnússon fór draumaferðina á hestbaki þegar hann fór ásamt félögunum frá uppsveitum Borgarfjarðar vestur í Ísafjarðardjúp.

„Ég er hestamaður og fer alltaf langar hestaferðir á sumrin. Sérstaklega eftirminnileg er ferð sem ég fór sumarið 2011. Við förum alltaf í eina vikulanga hestaferð á sumrin við félagarnir sem erum búnir að ríða út saman síðan við vorum í skóla. Mig hefur nú alltaf dreymt um að ríða vestur í Ísafjarðardjúp, sem er nú ekki hefðbundin leið, og fórum við þá leið í þetta skiptið,“ segir Andrés þegar hann er spurður um eftirminnilega ferð.

„Við byrjuðum í uppsveitum Borgarfjarðar og enduðum á ysta bæ Snæfjallastrandarinnar. Á leiðinni þurftum við að ríða yfir Gilsfjarðarbrú en við höfum alltaf 60-70 hesta í stóði með okkur. Það er hættulegt að reka hrossin í mikilli bílaumferð og þurftum við því að fá lögreglufylgd. Það var mjög tilkomumikið að ríða á undan stóðinu í lögreglufylgd yfir brúna með alla Það er óvanalegt ferðalag að halda ríðandi úr Borgarfirði vestur til Ísafjarðar eins og Andrés og félagar gerðu sumarið 2011. Bílana sem voru að koma á móti og þurftu að stoppa. Annað sem stóð eftir úr þessari ferð var stórbrotin náttúran og andstæðurnar sem við mættum í íslensku náttúrunni. Við fórum til dæmis yfir Þorskafjarðaheiðina sem er algjör auðn en af henni er komið í gróðursælan Langadalinn sem að mestu leyti er vaxinn birki. Yfir heiðina var farin gamla póstmannaleiðin sem kölluð er. Hún er vörðuð alla leið og vörðurnar standa enn. Þær eru alveg frábær mannvirki og sumar beinlínis listaverk.“