*

Sport & peningar 16. júlí 2016

Í lukkupottinn.. eða hvað?

Andrew Luck var á dögunum gerður að launahæsta leikmanninum í sögu NFL.

Alexander F. Einarsson

Andrew Luck, leikstjórnandi ameríska fótboltaliðsins Indianapolis Colts, var á dögunum gerður að launahæsta leikmanninum í sögu NFL-deildarinnar með sannkölluðum risasamningi. Luck skrifaði undir sex ára samning við Colts að verðmæti 140 milljóna dollara, eða að meðaltali 23,3 milljóna dollara á ári. Þetta nemur tæpum 450.000 dollurum á viku, sem gerir hann launahærri en langflestar knattspyrnustjörnur heims.

Þegar öllu er á botninn hvolft er samningurinn þó ekki nærri jafn safaríkur og hann lítur út fyrir að vea í fyrstu, frekar en samningar annarra leikmanna í NFL-deildinni. Samningar deildarinnar eru nefnilega alls ekki bindandi og eru auk þess settir upp með flóknum hætti til að vinna í kringum hið svokallaða launaþak.

Tveir fuglar í skógi

Þó svo að samningur Luck sé metinn á 140 milljónir dollara eru honum „einungis“ tryggðar 87 milljónir, sem er að vísu langstærsta tryggða launafjárhæðin í sögu NFL. Að sama skapi virka samningar deildarinnar í flestum tilfellum þannig að leikmenn fá lægsta upphæð fyrstu árin og hækkar hún með hverju árinu. Félögin haga samningum sínum á þessa leið til að geta starfað undir launaþaki NFL-deildarinnar, sem mun á komandi tímabili telja 155,27 milljónir dollara á hvert félag.

Með því að borga sem minnst í byrjun geta félögin haldið sér undir launaþakinu en skiljanlega geta skapast vandamál þegar líða tekur á samninginn og launin verða hærri og hærri. Þá er lausnin hins vegar einföld. Félögin losa sig við leikmanninn með því að rifta samningi hans og þannig fer hann á mis við stóran hluta upphaflegrar samningsupphæðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: NFL  • fótbolti  • íþróttir  • Indianapolis Colts  • Andrew Luck