*

Bílar 19. maí 2019

Í ralli og smáréttingum

Jóhann H. Hafsteinsson tók þátt í mörgum rallkeppnum hér á árum áður. Hann lenti í ýmsum ævintýrum.

Jóhann H. Hafsteinsson tók þátt í mörgum rallkeppnum hér á árum áður. Hann lenti í ýmsum ævintýrum og eitt það svakalegasta var þegar hann hvolfdi rallbíl sínum á Heklu í Alþjóðarallinu. Í dag rekur Jóhann fyrirtækið Smáréttingar ehf. á Smiðjuvegi 36 í Kópavogi sem er eina fyrirtækið sem sérhæfir sig í að fjarlægja smádældir af bílum, án þess að mála þá.

„Ég keppti í mörgum keppnum með Gunnari bróður mínum hér á árum áður. Við vorum aðallega á tveimur bílum, annars vegar Ford Focus og hins vegar Suzuki Swift sem reyndist vel og var hörkubíll.

Það höfðu margir þekktir ökumenn keppt á Súkkunni þegar við eignuðumst hana. Ökumenn sem síðar urðu Íslandsmeistarar. Það var oft sagt að þessi Súkka hefð verið eins konar framhaldsskóli íslenskra rallökumanna. Súkkan er enn til í höndum góðra manna og nýtur nú ævikvöldsins sem nýuppgerður safngripur með eigin facebook-síðu og allt.

Fordinn var öflugri bíll og gríðarsterkur, öll yfirbygging soðin upp, með s.k. dogbox gírkassa og „stand-alone“ race-tölvu. Það var hægt að tjúna hann sérstaklega m.t.t. yfirborðs, malar eða malbiks, svo eitthvað sé nefnt. Eitt sinn var tölvugúrúið statt erlendis þegar við vorum að gera okkur klára í keppni. Ekkert mál, bíllinn var bara tengdur inn á alnetið og fínstilltur yfir hafið. Fordinn var amerískur að uppruna, smíðaður í Mexíkó sem brautarbíll en var breytt í rallbíl þegar hann kom til landsins.“

Bíllinn kastaðist upp

Jóhann rifjar upp rosalega ökuferð í Ford Focus bílnum. „Við bræður voru að keppa í Alþjóðarallinu og vorum með allt í botni í þungu færi á beinum vegarkafla á Heklu þegar spyrna að framan slitnaði. Við þetta snerist bíllinn, kastaðist upp og hlunkaðist á toppinn og endaði sem betur fer á hjólunum. Okkur sakaði ekki enn bíllinn fór ekki lengra. Þetta var svakalegt og eftirminnilegt. Það er rosalega gaman að keppa í ralli. Hjá okkur bræðrum var alltaf markmiðið að klára, ná í reynslu. Við fögnuðum alltaf þegar við komumst heilir í mark. Það er mögnuð tilfinning að aka á ystu mörkum með allt í gangi og adrenalínið í botni,“ segir hann.

Jóhann á gamlan Peugeot 205 GTI árgerð 1986. „Þetta er léttur og skemmtilegur bíll með 1,9 lítra vél. Ég flutti hann til landsins frá Belgíu og var hann lengi notaður sem vinnubíll fyrir Smáréttingar. Í dag er hann kominn á eftirlaun og einungis notaður á sumrin. Hann er búinn að skila sínu, ekinn rúmlega 330 þús. km og aldrei slegið feilpúst. Hann fær vissulega talsverða athygli í umferðinni og það er skemmtilegt að keyra hann í borgarakstrinum,“ segir Jóhann.

Dælduðu og réttu í gríð og erg

Þeir bræður stofnuðu Smáréttingar árið 2004. „Við vildum starfa við eitthvað sem tengdist bílum og væri nýjung á Íslandi. Við fundum þetta fyrirbæri, PDR (Paintless Dent Removal) á netinu. Við skruppum síðan til Skotlands til að kynna okkur svona fyrirtæki sem störfuðu þar. Loks héldum við til Idaho í Bandaríkjunum til að læra smáréttingar og kaupa verkfæri sem eru mjög sérhæfð. Við eyddum síðan vetrinum á eftir í að æfa okkur og ná upp færni og sjálfstrausti áður en við héldum út á mörkina. Við fylltum bílskúrinn af allskonar boddýhlutum sem við síðan dælduðum og réttum í gríð og erg. Fyrirtækið hefur verið á sömu kennitölu allar götur frá stofnun 2004 og við erum nokkuð stoltir af því.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér