*

Bílar 27. september 2014

Í sínu besta formi

Ný kynslóð Mercedes Benz C-Class kom fram á sjónarsviðið í byrjun sumars.

Róbert Róbertsson

Þýski lúxusbílaframleiðandinn í Stuttgart hefur lagt mikinn metnað í hinn nýja C-Class og það skilar sér því bíllinn er afar vel heppnaður. Nýja C-línan líkist dálítið hinum stóra og glæsilega lúxusbíl S-Class í útliti og er ekki leiðum að líkjast.

C-Class hefur stækkað nokkuð frá fyrri kynslóð, er 10 cm lengri og 4 cm breiðari og bíllinn er allur rýmri, ekki síst fyrir aftursætisfarþega. Samt er þessi nýja kynslóð bílsins 50 kg léttari, en þar munar mestu um aukna álnotkun í smíði hans og svo skemmtilega vill til að álið er einmitt framleitt á Íslandi.

Fagurlega hannaður

Bíllinn er með fallegar línur. Fremur langt húddið og fagurlega hannaður hliðarsvipurinn minnir um margt á S-línuna. Að aftan er hann sportlegur með tvö púströr sem setja punktinn yfir i-ið. Innanrýmið er vandað og með nútímalegri blæ en í forveranum. Það er í anda þeirra breytinga sem Mercedes- Benz hefur gert í nýjum bílum sínum að undanförnu. Þar eru fimm stórar lofttúður áberandi sem og sjálfstæður upplýsingaskjár. Hönnunin finnst mér heilt yfir vel heppnuð og þægindin eru öll með besta móti. Nýi bíllinn er allur rúmbetri að innan en forverinn. Þá er farangursrýmið stærra en áður og rúmar nú alls 480 lítra.

Margar vélarstærðir í boði

Hægt er að velja um nokkrar vélarútfærslur í C-Class, tvær dísilvélar og þrjár bensínvélar. Reynsluakstursbíllinn C 220 er með 2,2 lítra dísilvél sem skilar 170 hestöflum. Krafturinn er prýðilegur og togið gott. Góð 7 gíra G-Tronic sjálfskiptingin miðlar því vel á réttum snúningi og fumlaust. Dísilvélin er sparsöm. Uppgefin eyðsla er 5,4 lítrar í blönduðum akstri samkvæmt framleiðanda en í reynsluakstri er alltaf tekið talsvert á og bíllinn var með rétt rúmlega 6 lítra eyðslu sem verður að teljast mjög gott fyrir þennan stærðarflokk. Persónulega finnst mér alltaf hvimleitt að heyra dísilvélina mala í fólksbíl, ekki síst í lúxusbíl sem þessum.

Af öðrum útfærslum C-Class má nefna C 250 sem er með sömu vél en tveimur forþjöppum. Sá skilar 204 hestöflum. Bensínvélarnar eru 1,6 eða 2,0 lítra og frá 156 til 211 hestöfl og talsvert lágværari en dísilvélarnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.