*

Bílar 8. desember 2018

Í snjóflóði og grjóthruni

Róbert Róbertsson

Páll Halldór Halldórsson er án efa með þekktari atvinnubílstjórum landsins. Hann hefur ekið trukkum í alls kyns aðstæðum um Vestfirðina, lent m.a. í snjóflóði og grjóthruni en alltaf komist heill í gegnum aksturinn. Páll Halldór hefur tekið þátt í ýmsum akstursíþróttum og var m.a. Íslandsmeistari í ralli.

„Mig grunaði ekki sem ungan dreng í Hnífsdal og sá Ármann Leifsson vöruflutningabílstjóra aka sem oftast í gegnum þorpið mitt á leið sinni til Bolungarvíkur að ég yrði atvinnubílstjóri hjá honum seinna meir. Á þessum árum sá maður ekki marga svona stóra og öfluga bíla á ferðinni, í mesta lagi einn og einn gamlan og grænan „KúluBenz“.

Ármann var mín hetja þegar ég var þarna 6 ára gamall púki í Hnífsdal. 16 ára gamall var ég búinn að eignast kærustu í Bolungarvík og það var einmitt dóttir Báru eiginkonu Ármanns og þá var ekki aftur snúið. Þá var ég kominn inn á heimilið og áður en langt um leið var ég farinn að keyra hjá þeim hjónum,“ segir Páll Halldór. 

Lærdómsríkt að aka Vestfirðina

Fyrst var ég sendur í styttri túra um nágrenni heimabyggðarinnar á minnaprófsbíl og þegar ég tók meiraprófið fór ég að keyra stærri bíla í lengri vegalengdir en Ármann var með fastar áætlunarferðir á milli Reykjavíkur og norðurhluta Vestfjarða. Ég var samtals um átta ár í þessum akstri og það var mikið ævintýri að aka þessa leið og þá sérstaklega á veturna.

Vegurinn um Steingrímsfjarðarheiði var ekki tilbúinn þarna fyrstu árin mín og menn voru að keyra hálfkláraðan veg í alls konar veðrum og ferlegum aðstæðum oft á tíðum. Vegurinn út fyrir Reykjanesið, þ.e. á milli Ísafjarðar og Mjóafjarðar, var svakalegur og engan veginn nothæfur í akstur á svona vörubílum að vetri til.

Hveravatn er þarna víða að finna og rann þannig yfir veginn og fraus og úr urðu miklir klakabunkar með tilheyrandi brasi að aka yfir. En þetta var mjög lærdómsríkt. Menn þurftu að mestu að treysta á sjálfan sig og eigin getu. Það var líka ekki síður mikill lærdómur að hafa Ármann sem lærimeistara.“ 

Framendi bílsins í snjóflóðinu

Páll Halldór segir að við slíkar aðstæður sé ekki gott að vera veðurhræddur eða sjá drauga bak við annan hvern stein. „Stundum þurftum við bílstjórarnir á þessari leið að sofa í bílnum undir hlíð einhvers staðar, jafnvel þar sem von var á snjóflóðum. Ég lenti í tvígang í snjóflóði og nokkrum sinnum hef ég fengið grjóthrun á bílinn hjá mér. Annað snjóflóðið var lítið en hitt stærra, ca 300 m langt og 1,5 m á hæð. Það var í Skötufirði á Vestfjörðum. Það voru mikil læti í veðrinu þennan dag 14. mars 1995.

Allt í einu var allt í svarta kófi fyrir framan bílinn minn. Guðbjartur Óla Violla hefilstjóri var þarna 200 metra fyrir framan mig og ég stoppaði bílinn um leið. Þá fann ég fyrir skrítinni hviðu en um leið sá ég að það lægði aðeins og þá áttaði ég mig á því að það hafði fallið snjóflóð og hefillinn úti í því miðju. Flóðið var um 300 metra langt og um 1,5 metrar á þykkt. Ég var með framhjólin á bílnum inni í flóðinu miðju svo ég einfaldlega setti hann í bakkgír og bakkaði eina bíllengd. Guðbjartur náði sem betur fer að aka út úr flóðinu áður en snjórinn settist. Í þessum túr var ég 48 tíma á ferðinni án þess að loka augunum,“ segir hann.

Ekur ferðamönnum um allar trissur

Í dag ekur Páll Halldór erlendum ferðamönnum út um allar trissur. „Bíllinn minn er mikið breyttur Mercedes-Benz Sprinter bíll á stórum hjólum sem tekur ellefu farþega og það er nóg að gera í akstrinum. Ég er helst að fara dagsferðir í Þórsmörk eða Gullna hringinn með viðkomu á Langjökli. Á sumrin fær maður oft 4 til 9 daga ferðir og þá er landið allt undir og hálendið heillar marga og alltaf jafn gaman að aka um Fjallabak.

Oftast er ég með fjölskyldur eða vinahópa og setið í öllum sætum en svo kemur fyrir að einungis einn til tveir farþegar eru í bílnum og þeir aðilar hafa þá efni á því. Ég hef alltaf jafn gaman af akstrinum og það er sannarlega gott að hafa reynsluna úr flutningunum. Farþegarnir eru frá öllum heimshornum. Mér finnst þægilegast að keyra Vestur-Evrópubúa, þ.e. fólki sem er líkast okkur Íslendingum. Norðurlandabúar, Bretar, Þjóðverjar og svo eru Kanadamenn og Bandaríkjamenn mjög fínir og þægilegir,” segir hann og brosir.

Íslandsmeistari í ralli

Páll Halldór er mörgum kunnur í rallinu en hann keppti á árum áður ásamt Jóhannesi Jóhannessyni. Saman urðu þeir Íslandsmeistarar árið 1998, héldu upp á það nýverið með því að láta gamlan draum rætast og kepptu erlendis í september síðastliðinn Hann er einnig margfaldur Íslandsmeistari í ökuleikni og hefur unnið til margra verðlauna í hinum ýmsu akstursíþróttum.

„Sem dæmi þá sigraði ég í Ökuleiknikeppni á Ísafirði á mínum vöruflutningabíl. Þarna var keppt á alls kyns ökutækjum, flestir á sínum einkabíl og ég mætti á vöruflutningabíl með kassa og öllu og vann þessa keppni og komst í úrslitin í Reykjavík síðar um sumarið,“ segir Páll Halldór hlæjandi þegar hann rifjar þetta upp.

Nánar má lesa um málið í Atvinnubílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.