
Í einni af voldugustu byggingum vestan megin við Central Park er ótrúleg þakíbúð til sölu. Íbúðin, sem hefur verið endurgerð fyrir fimm milljónir dali, er án innréttinga. Í raun bíður bara hvítur kassi á tveimur hæðum eftir hugmyndaríkum, og ríkum, eiganda.
Íbúðin er 500 fermetrar og er á 19. og 20. hæð í fjölbýlishúsi sem stendur við Central Park. Húsið, sem var byggt 1929, kemur fyrir í kvikmyndunum Ghostbusters og Superman.
Mikið hefur verið lagt í eignina og nokkur rými sameinuð sem mynda nú glænýja íbúð. Samkvæmt teikningum þá rúmar eignin sjö svefnherbergi en hugmyndir að skipulagi eru alfarið í höndum þeirra heppnu sem fjárfesta í eigninni.
Alls staðar úr íbúðinni er fallegt útsýni yfir garðinn og borgina og mikil áhersla er lögð á birtu. Á efri hæðinni eru veggirnir flestir úr gleri og stórt turnherbergi með tvöfaldri lofthæð. Tvær mjög stórar svalir eru í íbúðinni.
Calvin Klein er fyrrum eigandi þakíbúðarinnar en hún kostar 35 milljónir dala. Fasteignasalan Brown Harris Steven sér um söluna.