*

Ferðalög & útivist 7. febrúar 2016

Icelandair býður ferðamönnum ókeypis ferðafélaga

Nýjasta markaðsherferð flugfélagsins er mjög óhefðbundin en mun án efa vekja athygli.

Erlendir farþegar Icelandair geta valið sér ferðafélaga meðal starfsmanna félagsins í vetur. Í myndbandi sem gert var í tengslum við herferðina segir Birkir Hólm Guðnason framkvæmdastjóri félagsins að farþegar geti valið hann eða hvaða starfsmann sem er sem ferðafélaga.

Þjónusta félagsins kostar ekkert og meðal áhugamála starfsmanna er sjósund, hjólreiðar, skíðaíþróttin, prjónaskapur og margt fleira.

Meðal starfsmanna sem hægt er að fara með í ævintýraferð meðan dvalið er á Íslandi er Björn Ingi Hafliðason flugstjóri hjá Icelandair. Björn er mikill skíðaáhugamaður og segir að hann myndi fara með farþegann í kringum landið, finna góða brekku og hafa gaman.

Það verður fróðlegt að sjá hvað margir ferðamenn muni nýta sér þessa óhefðbundnu þjónustu flugfélagsins. En hvort sem margir nýta sér hana eða ekki, þá mun hún án efa vekja mikla athygli. Sem er væntanlega einmitt markmiðið.