*

Ferðalög & útivist 26. mars 2012

Icelandair opnar nýtt „Saga Lounge“ í Leifsstöð

Aukin umsvif Icelandair hafa kallað á breytingar á Betri stofu félagsins. Þar er nú arinn úr stuðlabergi og varða úr grjóti ásamt öðru.

Ný „Saga lounge“, betri stofa Icelandair í Leifsstöð, hefur verið opnuð eftir gagngerar breytingar. Stofan er stærri en sú eldri og tekur mið af áherslu Icelandair á á náttúru og menningu Íslands. Leikmyndahönnuðirnir Eggert Ketilsson og Stígur Steinþórsson höfðu umsjón með breytingunum en í nýju stofunni er m.a. arinn úr stuðlabergi, varða úr grjóti sem Eggert valdi sérstaklega, fossar á veggjum ásamt myndum af Íslendingum eftir Sigurgeir Sigurjónsson ljósmyndara.

Fram kemur í tilkynningu frá Icelandair að framboð og umsvif félagsins hafi aldrei verið meiri og hafi það kallað á breytingar á „Saga lounge“.

Þá kemur fram í tilkynningunni að eitt af markmiðum Icelandair með setustofunni sé að kynna Ísland sem áfangastað fyrir farþega sem eru á leið yfir Norður-Atlantshafið með stuttri viðkomu á Keflavíkurflugvelli.

Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Icelandair, og Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Leifsstöðvar, klippu á borða í tilefni opnunarinnar og buðu farþega velkomna.