*

Tíska og hönnun 15. október 2013

IKEA er fimm ár að hanna eldhúsinnréttingu

Hönnunarferlið á bak við venjulega IKEA eldhúsinnréttingu er flókið og langt. Alveg ótrúlega langt.

Það tekur hönnunarteymi IKEA um fimm ár að hanna eldhúsinnréttingu. Þetta kemur fram í ítarlegri grein Wall Street Journal um hönnunarferlið hjá IKEA en þar kemur ýmislegt áhugavert í ljós.

Flóknasta hönnunin hjá IKEA eru eldhúsinnréttingarnar vinsælu. Þær koma í allt að 1100 hlutum, kosta í kringum 365 þúsund krónur og IKEA selur um eina milljón innréttinga á ári.

Þegar innrétting er seld, til fólks í yfir 100 löndum næstu áratugina, þarf að huga að hverju einasta smáatriði og allt þarf að vera í lagi. Einnig verður að vera hægt að flytja þetta auðveldlega á milli landa og pakka þessu almennilega niður svo vel fari um hvern einasta smáhlut. En áður en svo mikið sem einn skápur er rissaður upp fer hönnunarteymi IKEA í gegnum hvernig nútímalífið er í um 38 löndum. Teymið heimsækir löndin, fer heim til fólks og skoðar hvern krók og kima í eldhúsum fólks í öllum heimshornum. Hvar geymir fólk sleifarnar? En pottana? Hvar er best að hafa ísskápinn? Og þar fram eftir götunum.

Í greininni er þó bent á að með útbreiðslu IKEA hönnunar um allan heim eigi hönnunarteymið nánast að geta setið heima og ákveðið hvernig framtíðin eigi að líta út.

Umfjöllun hjá The Wall Street Journal má finna hér.

Stikkorð: IKEA  • Eldhúsinnréttingar