*

Menning & listir 4. desember 2013

Ilmandi súkkulaði og jólatónar í Langholtskirkju

Jólatónleikar hafa verið haldnir í Langholtskirkju í tæp 40 ár.

Jón Hákon Halldórsson

Það fer víst ekki framhjá neinum að jólin eru á næsta leiti. Desembermánuður og jólahátíðin sjálf eru óneitanlega meira háð venjum og hefðum en annar árstími. Fjölskyldur hittast í desember og skera út laufabrauð eða skreyta piparkökur. Á Þorláksmessu gúffa þeir allra hörðustu í sig vel kæstri skötu og á aðfangadag gerir fólk óvenjuvel við sig í mat með rjúpum, kalkún eða öðru góðgæti. Leynivinaleikir tíðkast á mörgum vinnustöðum og hjá sumum fjölskyldum er möndlusúpa ómissandi þáttur á aðfangadag. Sumir fara aldrei í kirkju nema á aðfangadagskvöld.

Sú hefð er þrjátíu og fimm ára gömul að íbúar úr Langholtshverfi og víðar að komi saman til þess að hlýða á Jólasöngva Kórs Langholtskirkju. Fyrstu tónleikarnir voru haldnir árið 1978 en þá var framboð af slíkum tónleikum ekki nærri því eins mikið og það er í dag. Á síðari árum hafa bæst við fleiri tónleikar, svo sem Jólagestir Björgvins Halldórssonar, jólatónleikar Baggalúts njóta líka sífelldra vinsælda og Frostrósir hafa haldið tónleika um nokkurra ára skeið. En þrátt fyrir að það bætist í flóruna hafa Jólasöngvar Kórs Langholtskirkju og Gradualekórsins haldið sínum tryggu áheyrendum sem kjósa gullfallega tónlist en fremur fábrotna umgjörð á tónleikunum. Ólöf Kolbrún Harðardóttir hefur sungið Ó, helga nótt og Ave Maríu eftir Sigvalda Kaldalóns lengur en elstu menn muna. Hin síðari ár hafa Eivör Pálsdóttir og Þóra Einarsdóttir einnig skipst á að syngja einsöng á tónleikunum.

Sá maður sem á mestan heiður af tónleikunum er samt vafalaust kórstjórinn sjálfur, Jón Stefánsson. Á hverjum einustu tónleikum segir Jón söguna af því að fyrstu tónleikarnir hafi verið haldnir áður en Langholtskirkja hafi verið fullbyggð og því hafi allir viðstaddir þurft að klæða sig vel. Á tónleikunum hafi svo verið boðið upp á rjúkandi heitt súkkulaði og piparkökur svo fólk gæti hlýjað sér. Jón lætur sér ekki nægja að segja þessa sögu heldur er enn boðið upp á súkkulaði og piparkökur svo hægt sé rifja upp stemninguna eins og hún var í lok áttunda áratugarins. Það eru ekki bara gömlu góðu jólasálmarnir og jólalögin úr Langholtskirkju sem eru ómissandi heldur líka upprifjun Jóns á sögunni. Vonandi verður þessu öllu framhaldið sem lengst.