*

Menning & listir 10. ágúst 2016

Inngrip sem listrænt framleiðsluferli

Á morgun fimmtudag 11. ágúst opnar Karin Sander einkasýningu í i8 Gallery við Tryggvagötu.

Eydís Eyland

Verk Karin Sander er gjarnan lýst sem „inngripi“, sem er réttnefni enda er í fæstum tilvikum hægt að segja að baki þeim liggi hefðbundið listrænt framleiðsluferli. Við fyrstu sýn virðast verk Karin Sander gjörólík, og koma saman verk sem eru órafjarri hvert öðru, svo sem grænmeti sem neglt hefur verið upp á vegg eða ljósmynd tekin á farsíma, sem fylgir stífum reglum, þótt sjónarhornið sé algerlega tilviljanakennt. En þegar betur er að gáð þá snúast þau öll um það hvernig smávægileg ástandsbreyting opnar fyrir möguleikann að búa til eitthvað annað og nýtt.

Þetta er einmitt tilfellið með ljósmyndir þær sem teknar voru á farsíma hennar í hvert skipti sem einhver hringdi í listamanninn. Síminn er þannig forritaður, að í hvert skipti sem síminn hringir og hún svarar, þá smellir myndavélin af. Þannig hefur Karin búið til verklag eða leikreglur, sem segja til um hvernig verkin verða til, og jafnframt færa að vissu leyti áhrif á  afraksturinn úr hennar höndum. Afraksturinn er röð ljósmynda af ýmsum smáatriðum, sem geta sagt bæði mikið og lítið um örskotsstund, um einhvern tiltekinn stað og landfræðileg hnit hans. Þegar síminn hringir, gæti hann tekið mynd af stólnum fyrir framan hana, mynd af loftinu, fótunum eða af skrifborðinu hennar.

Snilligáfa Karinar Sander felst í því að fá einfaldar hugmyndir sem leiða af sér frábærar niðurstöður. Að minnsta kosti virðast hugmyndirnar einfaldar í fyrstu, en svo reynist framkvæmdin tæknilega mjög flókin og tekur mörg ár í vinnslu. En ávallt er úrlausnin einhvers konar töfralausn sem krefst athygli áhorfandans. 

Karin Sander býr og starfar í Berlín og Zürich. Hún hefur verið prófessor í myndlist og arkitektúr við ETH í Zürich frá 2007. Verk hennar er að finna í fjölmörgum söfnum, þar á meðal Museum of Modern Art og The Metropolitan Museum of Art í New York; Þjóðlistasafninu í Osaka; Ísraelska safninu í Jerúsalem, sem og Staatsgalerie Stuttgart. Þetta er þriðja einkasýning hennar í i8.

Sýningin stendur yfir dagana 11. ágúst 2016 – 24. september 2016.

Stikkorð: i8 Gallery  • Karin Sander