*

Tölvur & tækni 27. júlí 2012

Innherjar seldu bréf Zynga á hárréttum tíma

Lykilstarfsmenn og hluthafar í leikjaframleiðandanum Zynga seldu hlutabréf fyrir tugi milljarða rétt fyrir hrun bréfanna.

Starfsmenn og hluthafar leikjaframleiðandans Zynga seldu hlutabréf í apríl fyrir alls 516 milljónir dala, andvirði um 63 milljarða króna. Í vikunni var svo greint frá því að afkoma fyrirtæksins á tímabili apríl til júní var langt undir væntingum og nam tapið á fjórðungnum 22,8 milljónum dala.

Tímasetning hlutabréfasölunnar er því vandræðaleg svo ekki sé meira sagt, en starfsmenn og hluthafar seldu bréfin á tólf dali á hlut, en gengið fór niður í rétt ríflega þrjá dali eftir afkomutilkynninguna.

Forstjóri Zynga, Mark Pincus, seldi bréf fyrir 200 milljónir dala, fjármálastjórinn David Wehner fyrir 4,6 milljónir dala og rekstrarstjórinn John Schappert seldi fyrir 3,9 milljónir. Þá seldu fimm hluthafar, þar á meðal Google, bréf fyrir alls 236,5 milljónir dala.

Salan var í formi hlutafjárútboðs, sem Morgan Stanley, Goldman Sachs og Bank of America sáu um, en vegna þess að öll seld bréf voru í eigu hluthafa og starfsmanna, en voru ekki gefin út í tilefni útboðsins, rann ekki eitt rautt sent inn í fyrirtækið sjálft í gegnum útboðið.

Stikkorð: Zynga  • Mark Pincus