*

Tíska og hönnun 22. janúar 2018

Innlit í 29 fm íbúð í 101 Reykjavík

Linda Ben hefur búið fjölskyldunni sinni einstaklega fallegt heimili á örfáum fermetrum á meðan draumahúsið er í byggingu.

Fagurkerinn og bloggarinn Linda Ben er að byggja draumahúsið sitt ásamt manninum sínum en á meðan á framkvæmdunum stendur tókst henni að búa til fullkomið heimili fyrir fjölskylduna í aðeins 29 fm íbúð. 

„Við Ragnar erum að byggja okkur hús frá grunni. Á meðan framkvæmdunum stendur búum við í tæplega 29 fm íbúð í miðbænum. Það var dálítið skref fyrir okkur, þriggja manna fjölskyldu, að minnka við okkur um heila 210 fm, nánast ómögulegt myndu einhverjir segja. En með miklu skipulagi og útsjónarsemi hefur þetta gengið virkilega vel fyrir sig og okkur líður mjög vel í pínu litlu íbúðinni okkar.“ 

Þó svo að íbúðin sé afar lítil segir Linda hana virkar hún alveg ótrúlega vel þar sem hún sé einstaklega vel skipulögð. „Áður en við tókum við íbúðinni þá hafði hún verið hluti af annari stærri íbúð, akkúrat þar sem við sofum núna var áður eldhús, mér þykir það ótrúlega viðeigandi miðað við atvinnu mína,“ segir Linda sem heldur úti einu vinsælasta matarbloggi landsins. 

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum hefur Lindu tekist einstaklega vel til með þessa örfáu fermetra.

„Það merkilega við það er að búa í þessari litlu íbúð, með svona lítið af dóti, er að okkur vantar sjaldan sem aldrei nokkuð. Auðvitað kemur það fyrir, eins og þegar við fórum til útlanda þá vantaði okkur ýmislegt sem við þurftum að ná í úr geymslu, en annars höfum við leitað mjög sjaldan í geymsluna. Ég er ekki frá því að lífið sé nokkrum stigum léttara í svona lítilli íbúð þar maður eyðir minni tíma í að hugsa um allt dótið sitt. En að sjálfsögðu hefur þetta allt kosti og galla, en núna einblínum við á það að horfa á kostina.“ Sjá nánar á http://lindaben.is/innlit-i-29-fm-ibud-i-101-reykjavik/