*

Menning & listir 26. desember 2015

Innlit í efnahagsþróun Kína

Bókarýni VÍB og Viðskiptablaðsins fjallar að þessu sinni um bókina Dealing With China.

Egill Þór Níelsson

Þær breytingar sem hafa átt sér stað í Kína undanfarna áratugi eru einstakar og þetta 10 trilljón Bandaríkjadollara hagkerfi neytir í dag um helmings allra kola, steypu, járngrýtis og stáls heimsins. Það getur þó verið eins hættulegt að ofmeta styrk Kína og að vanmeta veikleika þess. Í Dealing with China, bendir Henry Paulson á að „félagslegi samningur“ kínverska kommúnistaflokksins við þegna landsins um stjórnun gegn efnahagslegum umbótum sé að flækjast. Með aukinni velmegun verða gagnrýnisraddir vegna málefna á borð við mengun, mataröryggi, spillingu, búsetuleyfi og eignarrétt sífellt háværari.

Paulson telur kínversk yfirvöld skilja að slíkar umbætur séu nauðsynlegar en er hins vegar gagnrýnni þegar kemur að takmörkuðu aðgengi fólks að upplýsingum, t.d. með lokun Google, Facebook og ýmissa erlenda fréttamiðla, sem er m.a. afar hamlandi fyrir kínversk fyrirtæki í alþjóðlegum rekstri. Markmið Paulson í dag er að efla mikilvægasta tvíhliða milliríkjasamstarf heimsins, á milli Bandaríkjanna og Kína sem eru í senn tvö stærstu hagkerfi heims og menga mest allra. Án uppbyggilegrar samvinnu þessara stórvelda er ljóst að lítið mun þokast í alþjóðlegu samstarfi, nánast óháð málefninu.

Þetta er meginástæða þess að Bandaríkjamaðurinn Henry Paulson hefur beitt tíma sínum og kröftum undanfarna áratugi í að vinna með kínverskum leið­ togum, fyrst við umbætur á fjármálamarkaði sem stjórnandi hjá Goldman Sachs (þar af sem forstjóri frá 1999-2006), síðar sem fjármálaráðherra (2006-2009) og loks í gegnum Paulson-stofnunina, sem hann kallar hug- og framkvæmdaveitu (með áherslu á samstarf Bandaríkjanna við Kína á sviði umhverfismála og hagvaxtar).

Paulson hefur ávallt tamið sér sömu vinnubrögðin hvort sem hann fæst við verkefni sem bankastjóri, embættismaður eða stjórnarformaður félagssamtaka. Hann fer af stað í verkefni með viðamikla langtímasýn, kemur þeim af stað með áþreifanlegu fyrsta skrefi og vinnur svo markvisst að langtímasýninni eftir strangri aðgerðaáætlun. Með þessum vinnubrögðum telur hann að styrkja megi samstarf Bandaríkjanna og Kína svo sameiginlegir hagsmunir verði að sameiginlegri velgengni og skapi um leið aukið traust á milli stórveldanna.

Bókin, sem telur 20 kafla á 430 blaðsíðum, skiptist í þrjá hluta sem samsvara starfsferli Paulson og veitir sjaldgæft innlit í persónuleika æðstu manna kínverska kommúnistaflokksins, sem skipa m.a. æðstu stöður ríkisfyrirtækjanna auk þess sem fram koma beinar tilvitnanir hans í samtöl við þrjá síðustu forseta og forsætisráðherra Kína. Sennilega hefur enginn Bandaríkjamaður, að Henry Kissenger undanskildum, haft eins beinan aðgang að æðstu mönnum kínverskra stjórnvalda og mögulega enginn Vesturlandabúi spilað eins mikilvægt hlutverk í umbótum við alþjóðavæðingu kínverskra fyrirtækja og opnun fjármálamarkaðarins þar.

Þetta er ekki síst merkilegt fyrir þær sakir að Paulson segir hreinskilnislega frá því að fyrstu tvo-þriðju hluta ævi sinnar hafi Kína sjaldan verið í huga hans og þekking hans á landinu verið lítil og illa ígrunduð. Þegar honum var falið að hafa umsjón með starfsemi Goldman Sachs í Asíu, í beinu framhaldi af sinni fyrstu Asíuferð til Hong Kong, undir lok níunda áratugarins þá var það með þeim rökum að Chicagoskrifstofan sem Paulson stýrði á þeim tíma væri „nær“ Asíu en höfuðstöðvar bankans í New York. Það var fátt á þeim tíma sem benti til þess að Kína myndu verða eitt helsta hugarefni Paulson aldarfjórðungi síðar.

Bankamaðurinn

Paulson lærði fljótt að velgengni erlendra fyrirtækja í Kína yrði að byggja á traustum langtímasamböndum. Framgangur verkefna tekur gjarnan langan tíma í Kína, þar sem ógagnsæ innanhúsumræða í stjórnkerfinu getur þæft mál, en um leið og ákvörð­ un að halda fram á við er tekin þá gerast hlutirnir mjög hratt fyrir sig. Þetta kom bersýnilega í ljós þegar Goldman Sachs var valið til að veita ráðgjöf við tímamótaskráningu kínversks ríkisfyrirtækis, China Telecom, á alþjóð­legan hlutabréfamarkað, í Hong Kong 23. október 1997. Þetta var innan við fjórum mánuðum eftir að Hong Kong varð aftur hluti af Alþýðulýðveldinu Kína og í miðri asísku fjármálakrísunni.

Skráning China Telecom var á sínum tíma sú stærsta á asískan markað. Þegar Wang Qishan, þáverandi yfirmaður China Construction Bank, tilkynnti varaforsætisráð­ herra Kína, Zhu Rongji, um að 4,2 milljarðar Bandaríkjadala hefðu fengist úr hlutafjárútboðinu, þá lagði hann áherslu á að þetta væri alvöru gull og silfur, sem er kínverskt orðatiltæki yfir „alvöru pening“. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá skráningu China Telecom árið 1997.

Þrjú stærstu hlutafjárútboð heims til dagsins í dag voru öll útboð kínverskra félaga. Þau eru (3) Industrial and Commercial Bank of China (ICBC – árið 2006), 21,9 milljarða Bandaríkjadollara skráning í Hong Kong og Sjanghæ, (2) Agricultual Bank of China (ABC – árið 2010), 22,1 milljarðs Bandaríkjadollara skráning í Hong Kong og Sjanghæ, og loks (1) Alibaba (2014), 25 milljarða Bandaríkjadollara skráning í New York. Ýmis vandamál og vaxtaverkir hafa þó komið upp við einkavæðingu kínverskra fyrirtækja og Goldman Sachs hefur ekki farið varhluta af því.

Skömmu eftir China Telecom skráninguna ákvað Paulson t.a.m. að taka að sér verkefni við að endurskipuleggja GTE og GITIC, fjárfestingarfélög sem römbuðu á barmi gjaldþrots eftir að kínverskir embættismenn í Guandong héraði höfðu veitt óarðbær lán til vildarvina sinna. Erlendir fjárfestar í sjóðunum töldu að kínverska ríkið myndi ábyrgjast lánin, en svo var ekki. Paulson féllst á að taka verkefnið að sér vegna persónulegrar beiðni Wang Qishan, sem nú var orðinn varafylkisstjóri Guandong. Ákvörðunin styrkti stöðu Paulson gagnvart ráðamönnum Kína og samkeppnishæfni Goldman Sachs sem átti síðar eftir að koma að stórum skráningum á borð við PetroChina og Bank of China.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Kína  • VÍB  • Bækur  • Kína  • Xi Jinping  • Bókmenntir  • Dealing With China