*

Ferðalög & útivist 19. september 2013

Inspired by Iceland vinnur Euro Effie auglýsingaverðlaunin

Effie verðlaunin eru virtustu fagverðlaun sem veitt eru í auglýsingageiranum en þetta er í annað skiptið sem herferðin hlýtur þau.

Inspired by Iceland markaðsherferðin hlaut í gærkvöldi hin virtu Euro Effie verðlaun í flokknum afþreying og skemmtun fyrir heimboð Íslendinga við hátíðlega athöfn í Brussel. Þetta er í annað skipti sem Inspired by Iceland hlýtur Euro Effie verðlaun, en herferðin hlaut aðalverðlaun í keppninni árið 2011 fyrir bestu notkun samfélagsmiðla, en það sama á hlaut Inspired by Iceland einnig Grand Prix verðlaunin fyrir herferð ársins.

Effie verðlaunin eru virtustu og eftirsóttustu fagverðlaun sem veitt eru í auglýsingageiranum, en það eru Samtök evrópskra auglýsingastofa (EACA) sem standa að veitingu Effie verðlaunanna. Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1954. Auk Inspired by Iceland kepptu auglýsingaherferðir fyrir mörg af þekktustu vörumerkjum heims um Euro Effie verðlaunin. Þar á meðal má nefna Volkswagen, Audi og Hyundai.

Íslandsstofa er framkvæmdaraðili Inspired by Iceland, en það voru Íslenska auglýsingastofan og The Brooklyn Brothers í London sem unnu vetrarherferðina.