*

Hleð spilara...
Tölvur & tækni 2. nóvember 2012

iPad Mini: Ekki fullkominn en vel þess virði að kaupa

Viðskiptablaðið er búið að prófa iPad mini. Þessi nýja spjaldtölva stenst fyllilega samanburðinn við Kindle Fire.

Bjarni Ólafsson

Nýjustu útgáfurnar af iPad spjaldtölvunni frá Apple fóru í sölu í dag. Annars vegar er um að ræða fjórðu kynslóð af gömlu góðu iPad tölvunni og hins vegar nýja vöru, iPad Mini, sem er rúmlega sjö tommu spjaldtölva.

Ég verð að viðurkenna að ég var með ákveðna fordóma í garð iPad mini spjaldtölvunnar þegar ég fékk hana í hendur. Hún hefur fengið á sig töluverða gagnrýni á erlendum tækni- og nördasíðum, einkum fyrir verðið, en í Bandaríkjunum er hún 130 dölum dýrari en keppinautarnir Amazon Kindle Fire og Google Nexus 7. Þá þykir skjárinn ekkert sérstaklega spennandi, en ólíkt iPad 4 er hann ekki með Retina HD skjá og er ekki hægt að horfa framhjá því að hann er hlutlægt séð verri en á nýjustu útgáfunni af Kindle Fire, sem er með HD skjá. Einnig verður að nefna að innviðirnir, örgjörvinn þar á meðal, eru ekki af allra nýjustu sort og í raun sambærilegir við það sem er innan í iPad 2 og því langt frá því sem prýðir iPad 4.

Örþunn og fislétt

Hvað sem því líður þá hurfu fordómarnir mjög fljótlega eftir að ég fékk gripinn afhentann. Þessi smágerða iPad tölva er gríðarlega vel smíðuð. Hún fer vel í hendi og er alveg ótrúlega létt. Þegar útlit hennar og hönnun er borin saman við Kindle Fire ber iPad Mini af í öllum atriðum. Hún er örþunn og létt og mjög er vandað til smíðarinnar. Hún er laus við það sem mér þykir vera helsti vandinn við hefðbundinn iPad, sem er að stóra tölvan er hreinlega of þung til að geta haldið á henni með annarri hendi í lengri tíma. Mini-inn mætti í raun ekki vera mikið breiðari, en hún er samt sem áður nógu mjó til að geta tekið utan um hana með annarri hendi, sem skiptir mig að minnsta kosti töluverðu máli. Þá er bakið á tölvunni stamara en á venjulegum iPad sem minnkar líkurnar á því að notandinn missi hana í gólfið.

Eitthvað hefur verið skrifað um það að skjárinn á iPad mini sé ekki nógu góður. Ég á sjálfur Kindle Fire lestölvu, þó ekki HD útgáfuna, og ég get ekki með nokkru móti séð að skjárinn á iPad Mini sé verri. Þegar lesnar eru bækur með allra minnsta letri er ekkert mál að sjá á textann. Þegar texti á vefsíðum er lesinn með smæsta letri er hann ekki eins skýr, en er þó vel læsilegur. Vel má vera að aðrar tölvur séu betri þegar kemur að því að horfa á háskerpusjónvarpsefni, en það hefur aldrei truflað mig.

Tvær myndavélar eru á iPad mini. Gagnrýnt hefur verið að þær eru ekki jafngóðar og þær sem eru á iPhone eða jafnvel á nýjustu útgáfunni af iPod Touch. Myndavélin á bakhlið tölvunnar er ágætismyndavél og sú á framhliðinni er fín til að geta tekið myndsímtöl við vini og fjölskyldu. Myndavélarnar eru s.s. ekkert til að hrópa húrra yfir, en ef fólk er að taka ákvörðun um spjaldtölvukaup út frá myndavélakosti þá ætti það hugsanlega að líta annað. 

Apple hagkerfið

Í tveimur atriðum ber iPad tölvan af Kindle Fire hér á Íslandi. Þrátt fyrir að á pappírnum eigi að vera hægt að horfa á gríðarlegt magn af sjónvarpsefni og kvikmyndum í gegnum Kindle og vera í áskrift á óteljandi tímaritum, svo dæmi séu tekin, þá er þessi þjónusta hreinlega ekki í boði fyrir Íslendinga. Kindle Fire er því lítið annað en mjög góð lestölva sem hægt er að nota til að svara tölvupóstum og fara á netið. Nú þegar iTunes er komið til Íslands, þótt framboðið þar sé ekki sambærilegt við það sem gerist og gengur í Bandaríkjunum eru möguleikarnir fyrir iPad mun meiri en fyrir Kindle. Þá verður að viðurkennast að töluvert auðveldara er fyrir Íslendinga að komast í bandarísku iTunes verslunina en að komast í afþreyingarstrauminn frá Amazon. Það er í raun óþolandi að þurfa að fara einhverja fjallabaksleið til að ná sér í smáforrit (öpp) á Kindle tölvuna.

Í sýningareintakinu af iPad Mini sem ég fékk afhent voru þegar komin inn stórskemmtileg forrit eins og GarageBand, Paper og Heritage Fotopedia. Einhver af þessum forritum kosta peninga, en þegar horft er til forritaumhverfisins sem nýr iPad eigandi gengur inn í er í raun ekki um neina samkeppni að ræða milli iPad og Amazon.

Enginn verðmunur á Íslandi

Þá er ekki útlit fyrir að verðmunurinn, sem svo margir eru að býsnast yfir erlendis, verði mikill hér á landi. Sextán gígabæta iPad mini mun kosta út úr búð um 59.000 krónur og svo vill til að Kindle Fire HD kostar 59.990 á buy.is og er ekki við því að búast að hann sé mikið ódýrari annars staðar.

Ef einhver er að leita sér að sæmilega ódýrri spjaldtölvu getur sá hinn sami gert margt vitlausara en að festa kaup á iPad Mini. Í raun er hægt að fullyrða að fyrir Íslendinga sé hún mun betri kostur en Amazon Kindle. Ég treysti mér hins vegar ekki til að bera hana saman við Google Nexus 7 af þeirri einföldu ástæðu að ég þekki hana ekki. Eins og með allar aðrar Apple vörur er hins vegar ómögulegt að fullyrða hvenær nýrri útgáfa kemur út og hvort hún verði mun betri. Einhverjir gætu ákveðið að bíða í hálft eða eitt ár í þeirri von að næsta útgáfa verði með háskerpuskjá. Þeir sem kaupa iPad Mini núna verða hins vegar ekki sviknir af græjunni og fyrir nýliða í Apple-hagkerfinu er tölvan mjög gott fyrsta skref.

Höfundur: Bjarni Ólafsson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu. bjarni@vb.is 

Stikkorð: Kindle Fire  • iPad Mini