*

Tölvur & tækni 16. október 2012

iPhone 5: Auðvelt að leggja þeim gamla

Viðskiptablaðið prófaði nýjasta farsímann frá Apple. Prófunin auðveldaði blaðamanni að leggja gamla símanum og kaupa nýjan.

Hilmar Kristinsson

Eftir margra mánaða bið sem einkenndist – eins og oftast nær - af orðrómum og getgátum þá svipti Apple á endanum hulunni af hinum margrómaði iPhone 5 á dögunum. Veigamestu breytingarnar á þessari nýjustu kynslóð símans eru að hann er þynnri, léttari, með lengri skjá og hraðvirkari en fyrri gerðir. 

Sjálfur hef ég átt alla iPhone-símana frá því sá fyrsti kom á markað fyrir fimm árum. Úr 3G í 3GS var ekki mikið stökk en frá 3GS yfir í iPhone 4 voru rosaleg viðbrigði. Það sama má segja þegar 4S er lagður til hliðar og iPhone 5 tekinn upp. Ég fann feikilegan mun á símunum tveimur.

Hægt að nota símann með annarri hendi

Að mínu mati er álið sem komið er á bakhlið nýja símans kærkomin breyting. Glerbakhliðin var mjög flott en það er þægilegra að meðhöndla símann og minni hætta er á því að hann verði fyrir miklu tjóni ef maður skyldi óvart missa hann. Það léttir líka símann töluvert. Eftir að hafa verið með 4S-gerðina  í tæpt ár þá finnur maður fyrir talsverðum þyngdarmun.

Stærð skjásins á iPhone 5 er algjörlega nýr fyrir tryggum iPhone-eigendum. Allir símarnir hafa fram til þessa verið með 3,5 tommu skjám en sá nýjasti er með 4 tommu skjá. Skjárinn var lengdur. Það kemur samt ekki niður á notkunarmöguleikum símans, s.s. að hægt er að nota hann með aðeins með einni hendi.

Hraðinn er lykilatriði

Með nýrri útgáfu af iPhone-síma er það algjört skilyrði að síminn sé í það minnsta hraðari en fyrirrennarinn. Örgjörvinn í iPhone 5 er tvöfalt hraðari sem gerir það að verkum að hann er sneggri að opna forrit og taka myndir. Öll vinna gengur sömuleiðis hraðar og snurðulaust fyrir sig. 

Ég prufukeyrði iPhone 5 í dágóðan tíma og var mjög erfitt skila honum aftur til þess eins að taka nota iPhone 4S á ný. Síminn er óneitanlega besti iPhone síminn hingað til. Með nýrri hönnun, frábærri rafhlöðuendingu og hraðari örgjörva er fátt sem hægt er að setja út á. Þetta gerði mér mikið auðveldara um vik að panta mér nýja gripinn og leggja þeim gamla.

Höfundur: Hilmar Kristinsson / hilmar@vb.is

Stikkorð: Apple  • iPhone  • iPhone 5