*

Tölvur & tækni 5. mars 2013

iPhone hefði getað heitað Telepod eða Tripod

Fyrrverandi auglýsingastjóri Apple fjallaði á dögunum um þau nöfn sem komu til greina á nýja snjallsímann frá Apple.

Áður en snillingarnir hjá Apple duttu á nafnið iPhone fyrir nýja snjallsímann sem þeir voru að hanna á árunum 2004 til 2007 komu mörg önnur nöfn til greina. Fyrirverandi auglýsingastjóri Apple, Ken Segall, hélt fyrirlestur í University of Arizona á dögunum þar sem hann ræddi þar meðal annars um nafngiftina og nefndi nokkur nöfn sem komu til greina. Vefsíðan 9to5Mac greinir frá.

Augljóst er að stjórnendur Apple hafa viljað með einhverjum hætti tengja nafn nýja símans við hinn gríðarvinsæla tónlistarspilara iPod og ber tilraunanafnið Telepod þess merki. Segall sagðist hafa velt því nafni fyrir sér því það væri eins konar framtíðarútgáfa af orðinu telephone (sími) að viðbættri -pod endingunni úr iPod.

Tripod var annað slíkt nafn, þar sem -pod endingin kom við sögu. Tripod, sem þýðir í raun þrífótur á ensku, átti að vísa til þess að hið nýja tæki væri sími, tónlistarspilari og netsamskiptatæki allt í einu.

Áhugaverðast er líklega að um tíma kom til greina að kalla símann iPad, sem eins og flestir vita var notað sem heiti yfir spjaldtölvulínu Apple.

Stikkorð: Apple  • iPhone