*

Tölvur & tækni 12. júní 2015

iPod í andarslitrunum

Tæknirisinn Apple hefur fjarlægt iPod, sitt fyrrverandi flaggskip, af forsíðu apple.com. Apple Music er komið í staðinn.

Alexander Freyr Einarsso

Svo gæti virst sem tónhlaðan iPod sé í útrýmingarhættu eftir að tæknirisinn Apple fjarlægði gripinn af forsíðu heimasíðu sinnar.

Efst á heimasíðu Apple var hægt að velja á milli ýmiss konar tækja frá fyrirtækinu, meðal annars Mac, iPhone, iPod og iPad og síðar Apple Watch. Nú hefur hins vegar iPodinn verið fjarlægður og hefur Apple Music fengið hans gamla pláss. Fartölvurnar, símarnir og úrið standa enn.

Þó er ekki búið að fjarlægja iPodinn algerlega af vefsíðu Apple. Hægt er að finna hann á botni Apple Music vefsíðunnar eða í vefverslun fyrirtækisins. Hann er hins vegar orðinn umtalsvert minna áberandi.

Óhætt er að fullyrða að iPod var sú vara sem skaut Apple aftur upp á stjörnuhimininn á sínum tíma, en hann hrifsaði til sín nánast allan markaðinn fyrir tónlistarspilara. Fyrsta ársfjórðunginn 2007 kom rétt tæpur helmingur tekna Apple eingöngu frá sölu á iPod. Fyrirtækið greinir hins vegar ekki lengur frá því í ársreikningum sínum hversu mikil salan á tónhlöðunni er, en gera má ráð fyrir því að hún hafi minnkað umtalsvert. Apple hefur til að mynda ekki uppfært iPod Touch frá árinu 2012 og hinn klassíski iPod fór af markaðnum árið 2014.

Líklegt er að salan á iPod hafi hrunið það mikið að Apple sjái sér ekki lengur hag í því að halda áfram framleiðslu og sölu, í ljósi þess að hægt er að hlusta á tónlist í hinum geysivinsæla iPhone og í Apple úrinu.

Stikkorð: Apple  • iPod