*

Veiði 30. nóvember 2013

Ísland er Mekka laxveiðinnar

Árni Baldursson í Lax-á segir nánast alla aðstöðu stangveiðimanna einstaka hér á landi.

Trausti Hafliðason

„Ísland er Mekka laxveiðinnar í heiminum," segir Árni Baldursson, eigandi Lax-á, sem í gegnum árin hefur verið eitt stærsta fyrirtækið á laxveiðimarkaðnum. „Hér er ekki stærsti laxinn,“ segir Árni og fullyrðir að hér á landi eru langfallegustu árnar auk svaklegs fjölda af frábærum ám.

„Veiðihúsin er líka flest mjög góð, aðgengi að ám yfirleitt gott og maturinn frábær. Ísland sker sig líka úr að því leyti að hér er ánum ekki skipt í mörg svæði heldur geta menn keypt sér leyfi í heilli á og veitt frá ósi og upp á fjall. Íslensku árnar eru líka tæknilega mjög krefjandi. Hér dugar ekki endilega bara að kasta í 45 gráður og bíða. Menn þurfa að kunna að strippa og hitcha,“ segir hann.

Árni segir íslensku leiðsögumennina alveg sérkapítula út af fyrir sig.

„Þeir eru það sem ég kalla ofurgædar. Þeir eru frábærir veiðimenn og kennarar og hnýta jafnvel flugur fyrir kúnnana. Þeir eru með veiðimönnunum hverja einustu sekúndu á öxlunum og nánast búa til fiska fyrir þá. Erlendis eru þetta oft það sem ég kalla stígvélagædar, þeir eru í vöðlum en gera ekkert sérstakt. Ef ég er að veiða á eftir íslenskum gædum í ám þá sér maður hvað þeir eru góðir. Þetta eru snillingar,“ segir Árni Baldursson. 

Ítarlegt viðtal má lesa við Árna um veiðina í Viðskiptablaðinu.  Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.

Stikkorð: Laxá í Kjós  • Lax-á  • Árni Baldursson