*

Ferðalög & útivist 17. maí 2020

Ísland hinn fullkomni áfangastaður

Í stað sólarstranda sem ekki er hægt að kaupa drykki á og borgarferðum með grímur fyrir andlitinu mælir Bloomberg með Íslandi.

Bloomberg fréttastöðin fjallar um Ísland sem hinn fullkomna áningarstað fyrir ferðaþyrsta því ekki sé bara náttúrufegurðin hér mikil heldur hafi stjórnvöldum tekist að bregðast rétt við kórónuveirufaraldrinum og ætli að opna landið fyrir ferðamönnum frá 15. júní næstkomandi.

Í samanburði við að þurfa að hanga á strönd þar sem svo langt verði á milli sólhlífa og engin bar verði að veita þjónustu, og að þurfa að vera með grímur fyrir andlitunum meðan verslað er í borgum Evrópu, hljómi það mun betur að vera í íslenskri náttúru enda landið dreifbýlt.

Er landið sagt ekki bara þekkt fyrir fallega náttúru, norðurljós, hraunhella og landslag sem notað var í Game of Thrones, heldur einnig nú sem dæmi um góða meðhöndlun á veirufaraldinum.

Fjallar fréttasíðan um hvernig Íslandi hafi tekist að halda faraldrinum í skefjum án of harðra takmarkana og nú sé Ísland að fara að gera tilraun með að finna rétt jafnvægi milli þess að draga að sér gesti og koma í veg fyrir að veiran fari á fullt í að dreifa sér á ný.

Dánartíðnin 0,6%

Einnig er sagt frá því að hér hafi stjórnvöld verið tilbúin með áætlun um viðbrögð mun fyrr en önnur lönd og hafi tekist að byrja prófanir fyrir Covid 19 áður en margir aðrir og hraða, í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu, og hafi jafnvel prófað fólk sem ekki sýndi nein merki sjúkdómsins.

Nú sé svo komið að hlutfallslega hafi engin þjóð verið jafnmikið prófuð og með því að setja fólk í sóttkví og elta uppi hverja þeir sem smituðust voru í samskiptum við, hafi tekist að fækka smitum í 1.802 og dauðsföllum niður í 10. Það sé dánartíðni sem nemur 0,6%, sem sé mun lægri en í Frakklandi, Ítalíu og Svíþjóð.

Þar komi eflaust inn lægri meðalaldur þjóðarinnar en víða, eða 36 ár, sem sé 10 árum minna en ítölsku þjóðarinnar, og svo er því haldið fram að vegna stærðar landsins miðað við fólksfjölda sé auðveldara að halda fjarlægðum milli fólks.

Ísland verði ekki innan öruggar bólu

Í stað þess að opna landið einungis fyrir fólki frá sérstökum öruggum svæðum, það er halda okkur innan einhvers konar öruggrar bólu, ætli stjórnvöld nú að opna það fyrir öllum sem annað hvort samþykkja tveggja vikna sóttkví, eða sýni fram á neikvætt próf við kórónuveirunni. Jafnframt þurfi allir ferðamenn að hafa rekjanleikaappið í símum sínum.

Greinin fjallar einnig um viðbrögð stjórnvalda til að aðstoða ferðaþjónustuna sem sé 10% af vergri landsframleiðslu landsins, eða svipað og hjá Ítalíu, og það megi einnig læra af því hvernig stjórnvöld hafi brugðist við gagnvart ferðaþjónustunni.

Stikkorð: Bloomberg  • ferðalög  • ferðaþjónusta  • Covid 19