*

Bátar 15. maí 2012

Íslandsvinur á spíttbát með hlébarðamynstri

Sir Philip Green var ekkert að fela það þegar hann fór á spíttbát með hlébarðamynstri út í risasnekkju sína í vikunni.

Breski auðkýfingurinn sir Philip Green var ekkert að fela aðdáun sína á hlébarðamunstri þegar hann naut veðurblíðunnar úti fyrir ströndum Mónakó í gær. Á sama tíma og óbreyttur daglaunamaður verður að láta sér duga að uppfylla sína villtustu drauma og spóka sig um í Speedo-sundskýlu með mynstrinu á sundlaugarbakka  þá virkar ekkert minna fyrir sir Green en spíttbátur með þessari áferð.

Útsendarar á vegum breska dagblaðsins Daily Mail náðu myndum af Green í sólinni við Miðjarðarhafið á bátnum Lion Club. Bátinn notaði hann til að komast út í snekkjuna Lionheart. Snekkjan er engin smásmíði, 206 feta löng og liggur hún gjarnar við festar í höfninni í Mónakó. Talið er að hún hafi kostað um 20 milljónir breskra punda, jafnvirði fjögurra milljarða íslenskra króna. 

Að sögn Daily Mail og samkvæmt þeim myndum sem blaðið birti af Philip Green í netútgáfu sinni í dag þá stýrðu hjálparkokkar hans skútunni á meðan hann sat og sinnti símtölum. Aðrir sáu svo um að flytja farangur hans. 

Blaðið rifjar upp að sir Philip Green er síður en svo spéhræddur með glysgirni sína. Er skemmst að minnast afmælisveislu sem hann hélt fyrir nokkru í Mexíkó. Þangað bauð hann nokkrum af vinum sínum og stjörnum úr afþreyingageiranum og hélt þeim upp á lúxushóteli í nokkra daga. Afmælisveislan kostaði rúman einn milljarð króna. 

Íslandsvinur

Sjálfur hefur sir Philip Green náin tengsl við Ísland. Hann og Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Baugs, unnum saman að yfirtöku á bresku fyrirtækjasamstæðuna Arcadia fyrir áratug síðan. Þegar lögregla gerði húsleit í höfuðstöðvum Baugs árið 2002 keypti Green hlut Baugs í fyrirtækinu. Þá fylgdist Green vel með málum hér eftir hrun og fundaði m.a.  með Björgvin G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra og fleirum í október árið 2008. Ekki kemur fram í breskum fjölmiðlum hvort Jón Ásgeir hafi verið á meðal gesta Green.

Þeir sem áhuga hafa á því að sjá Green, sem er sextugur að aldri, á spíttbát með hlébarðamynstri, geta smellt á hlekkinn hér að neðan og skoðað myndirnar. 

Green í spíttbátnum

Stikkorð: sir Philip Green