*

Tölvur & tækni 15. desember 2011

Íslandsvinur vill smíða risageimskutlu

Milljarðamæringurinn Paul Allen hefur eyrnamerkt gríðarháa fjárhæð til að smíða stærstu geimskutlu í heimi.

Bandaríski milljarðamæringurinn Paull Allen, sem byggir auð sinn á hlutabréfum í hugbúnaðarrisanum Microsoft, ætlar að eyrnamerkja 200 milljónir dala til að byggja stærstu flugvél í heimi. Flugvélina á að nýta til að auðvelda að koma gervihnöttum á braut um jörð.

Allen, sem kom hingað til lands á snekkju sinni í fyrra sumar, hefur um árabil haft geimferðir á teikniborðinu en hann kom að smíði geimferðaskutlunnar SpaceShip One fyrir sjö árum sem getur flutt áhugasama ferðalanga út í geim. Það verkefni kostaði hann tífalt lægri upphæð en hann hefur nú lagt til hliðar.

Skúta milljarðamæringsins vakti mikla athygli hér á landi, ekki síst stærð hennar og þeir aukahlutir sem voru á henni, þar á meðal kafbátar. Risaþotan sem Allen vill smíða er af svipuðum toga. Hún á að líkjast móðurskipi með að minnsta kosti sex Boeing 747 hreyfla og langtum stærri vængi en Airbus 380-risaþotan.

Stikkorð: Paul Allen  • SpaceShip One