*

Matur og vín 25. mars 2017

Íslendingar farnir að skilja út á hvað sushi gengur

Lúðvík Þór Leósson sushimeistari Sushi Social kennir landsmönnum að búa til sushi um þessar mundir á sérstöku námskeiði þar sem hann fræðir nemendur um allt sem viðkemur sushigerð.

Kolbrún P. Helgadóttir

Sjálfur kynntist Lúðvík sushi gerð fyrist fyrir sjö árum er hann hóf störf á SuZush en eigandi staðarins Sigurður Karl Guðgeirsson kenndi honum handtökin vel. Lúðvík segir sushi „bóluna“ hafa stækkað jafnt og þétt síðan árið 2010. „Íslendingar eru farnir að skilja út á hvað sushi gengur þó þeir séu enn að læra. Svo hefur úrval sushi staða aukist til muna hér á landi og er sushi í raun orðinn stór partur af matarmenningu okkar.“ Mikil eftirspurn hefur verið eftir kennslu í sushi gerð að sögn Lúðvíks og því setti hann á laggirnar svo kallað Sushi „workshop“ í samstarfi við Sushi Social en alls hafa 130 manns skráð sig nú þegar.

Reynir alltaf að gera betur

„Með rétta grunninn getur hver sem er búið til sushi, en til þess að gera virkilega gott sushi þarf margra ára æfingu. Það skemmtilegasta við sushi fyrir mér er að hver og einn getur valið hversu langt hann fer í sushi gerðinni. Maður getur eytt mörgum árum í að gera sama hlutinn þangað til að maður er orðinn sáttur, en í raun og vera heldur maður alltaf áfram að reyna að gera betur.“ Aðspurður um aðgang að hráefni til sushi gerðar á Íslandi segir hann fiskinn ekki gerast ferskari en hér á landi, og að flest grænmeti sem til þurfi sé gott og aðgengilegt rétt eins og önnur hráefni sem til þarf. Að lokum liggur okkur forvitni á að vita hver uppáhalds rúlla sushi gerðar mannsins er. “Uppáhalds sushi rúllan mín er Spider maki. Hún er með djúpsteiktum linskelskrabba, avocado, agúrku, "spicy" mæjó og "masago" sem er loðnuhrogn."

Frekari upplýsingar um sushi námskeiðið má finna á heimasíðu Sushi Social www.sushisocial.is, á miði.is eða í síma 568-6600.

Kokteill að hætti Sushi Social

Chilli Mojito:
Lime: 4-5 sneiðar
Hrásykur: 1 matskeið
Myntu lauf: 5 stk
Chilli: 2-3 sneiðar
Bacardi Razz: 3 dl
Triple sec líkjör: 2 dl
Sódavatn og Sprite: 50/50

Setja Lime og hrásykur í glas og þjappa.
Taka myntu laufin í lófann og klappa saman til að gefa meira bragð og setja út í.
Setja mulin ís í glasið og bæta við sódavatni og Sprite og hræra vel.
Toppa glasið með muldum ís og skreita með myntu vendi og chilli.