*

Tölvur & tækni 20. nóvember 2012

Íslendingar gera tölvuleik fyrir Twilight-myndirnar

Aðdáendur Twilight-myndanna geta keppt um þekkingu sína á myndunum í snjallsíma og spjaldtölvum.

Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Plain Vanilla hefur búið til tölvuleikinn Twilight QuisUp fyrir snjallsíma og spjaldtölvur sem ganga á stýrikerfum frá Apple og Google. Leikurinn var gerður fyrir bandaríska fyrirtækið Summit Entertainment, dótturfélag kvikmyndaversins Lionsgate, sem framleiðir myndirnar. Í leiknum geta aðdáendur kvikmyndanna keppt sín á milli um það hver viti meira um Twilight-myndirnar og efni þeim tengt í rauntíma. Nýjasta Twilight-myndin, The Twilight Saga: Breaking Dawn - Part 2, var frumsýnd í Bandaríkjunum fyrir helgi. 

Fram kemur í tilkynningu frá Plain Vanilla að hægt er nálgast spurningaleikinn í netverslunum Apple og Google, þ.e.a.s. Apple App store og Google Play. Leikinn má sömuleiðis nálgast á vefsíðu hans: twilightquizup.com.

Plain Vanilla er með skrifstofur í San Francisco og Reykjavík og framleiðir spurningaleiki fyrir snjallsíma og spjaldtölvur. Fyrirtækið hefur m.a. búið til leikinn The Moogies sem var valinn besti barnatölvuleikur Norðurlanda árið 2011. 

Stikkorð: Twilight  • Plain Vanilla