*

Hleð spilara...
Bílar 6. júní 2013

Íslendingar leikstýrðu myndbandi um nýjan Benz í LA

Tvíeykið Samúel Bjarki Pétursson og Gunnar Páll Ólafsson gerðu myndband um nýja Mercedes-Benz S-Class.

Leikstjóratvíeykið Samúel Bjarki Pétursson og Gunnar Páll Ólafsson hjá Truenorth gerðu flott kynningarmyndband með hinum nýja og glæsilega Mercedes-Benz S-Class sem tekið var upp í Los Angeles nýverið. Óttar Guðnason var tökumaður í þessu stóra verkefni þeirra félaga. Fleiri Íslendingar tengjast kynningarmyndinni því Biggi Hilmars og Biggi Mix sáu um tónlistina í henni. 

Bílinn er mjög háþróaður og tæknivæddur, með myndavélar og ratsjárskynjara og getur skannað umhverfi bílsins í 360 gráður.

„Þetta var stórt og magnað verkefni. Við vorum fengnir í gegnum umboðsskrifstofuna okkar í Þýskalandi til að leikstýra kynningarmyndinni sem er um 5 mínútna löng og útfærð í nokkrum útfærslum. Við byrjuðum á því að fara til höfuðstöðva Mercedes-Benz í Þýskalandi þar sem öll undirbúningsvinna fór fram og þar var farið yfir fjölmarga þætti enda mjög mikilvægt verkefni og mikilvægur bíll fyrir þýska lúxusbílaframleiðandann,“ segir Samúel Bjarki.

Götum lokað fyrir S-Class

„Því næst var flogið til Los Angeles þar sem kynningarmyndin var tekin á fjórum dögum. Þar biðu eftir okkur tveir glæsilegir S-Class bílar og raunar þeir fyrstu sem voru keyrðir á götu úti án nokkurs búnaðar til að fela bílinn. Söguþráðurinn er raunar mjög einfaldur og er sögusviðið um einn sólarhringur í borginni þannig að við mynduðum bílinn bæði dag og nótt. Þetta gengur út á að sýna hversu tæknivæddur bíllinn er og mjög bisness vænn. Við mynduðum í miðborg LA sem og víðar í borginni. Þetta var mjög umfagnsmikið enda mikið lagt í þetta og m.a. var stórum umferðaræðum lokað fyrir myndina,“segir Samúel Bjarki.

Hann bætir við að þeir hafi ekki þó fengið að mynda óáreittir því papparazzi ljósmyndarar mættu til að ná myndum af bílnum. „Papparazzi-ljósmyndararnir hafa einhvern veginn fengið veður af því að bíllinn væri þarna og við vorum hundeltir af þeim enda bíllinn sjóðheitur. Þeir náðu loks mynd af bílnum á þriðja degi í tökunum og við því var ekkert að gera,“ segir hann og bætir við þetta sé eitt stærsta og magnaðasta verkefni sem þeir hafa unnið við.

„Það var mikill heiður að leikstýra kynningarmyndinni sem hefur farið út um allan heim. Þetta var líka mjög skemmtilegt í alla staði og ekki á hverjum degi sem maður leikstýrir í kvikmyndaborginni LA og heilu hverfunum er lokað. Við erum mjög ánægðir með útkomuna og mér skilst að yfirmenn Mercedes-Benz séu það líka sem er ánægjulegt,“ segir leikstjórinn ánægður á svip.

Bíll með steinanudd í sætunum

Hinn glæsilegi S-Class er mjög háþróaður og tæknivæddur. Hann er með myndavélar og ratsjárskynjara og hvort tveggja skannar veg og akreinar allt umhverfis bílinn í 360 gráður eins og augu og eyru.

S-Class veit því þegar aðrir bílar nálgast á of miklum hraða á samsíða akreinum og varar ökumann við yfirvofandi hættu sem því getur fylgt. Með skynjurum og ratsjá veit S-Class þegar stefnir í aftanákeyrslu og getur með sjálfvirkum hætti beitt bremsubúnaði bílsins og virkjað jafnframt neyðarljósin til að aðvara aðra vegfarendur um yfirvofandi hættu.

S-línan getur meira að segja beitt sjálfstýringu til að halda sér á réttri akrein ef ökumaður missir stjórnina við það að þreyta sígur á hann. Bíllinn er einnig með þráðlausu interneti sem er innbyggt í bílinn ásamt því að hann er LED lýstur að innan sem og utan. Þá er boðið upp á steinnudd í sætum sem og ilmefni í loftræsibúnaði bílsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Öskju, umboðsaðila Mercedes Benz á Íslandi, er þegar byrjað að taka við pöntunum í lúxusvagninn.