*

Tölvur & tækni 13. september 2012

Íslendingar þurfa að huga að ýmsu fyrir kaup á iPhone 5

Íslendingar geta ekki nýtt sér allar gerðir iPhone 5 símanna sem Apple kynnti í gær. Símkort fyrir græjuna eru t.d. ekki til hér á landi.

Guðbergur Geir Erlendsso

Flóknara er nú en áður fyrir Íslendinga að kaupa sér iPhone-síma í Bandaríkjunum og þurfa þeir að huga að ýmsu áður en veskið er tekið upp.

Ólíkt iPhone 4S sem framleiddur var með stuðningi fyrir farsímanet bæði í Evrópu og vestanhafs verður nýi iPhone 5 síminn sem Apple kynnti í gær framleiddur í þremur útgáfum. Ein þeirra er fyrir CDMA-kerfi sem starfrækt eru nær eingöngu í Bandaríkjunum og svo tveimur mismunandi GSM-útgáfum. Ástæðan fyrir þessari breytingu er að nýi síminn er með stuðning fyrir næstu kynslóð í gagnaflutningum, sem kölluð er 4G, en sú þjónusta er keyrð á tíðnissviðum sem eru mismunandi eftir löndum.

Þetta þýðir að önnur GSM-útgáfan af símanum mun keyra á tíðnum sem eru aðallega útbreiddar í Bandaríkjunum á meðan hin keyrir á tíðnum sem eru aðallega útbreiddar í Evrópu og Asíu.

Símkort fyrir iPhone 5 ekki til hér

Bæði Síminn og Nova hafa sótt um tilraunaleyfi til að reka 4G þjónustu á Íslandi og áformar Póst-og fjarskiptastofnun að halda uppboð á úthlutunum fyrir 800 MHz og 1800 MHz tíðnissviðin seinna á þessu ári. Þjónustan gæti verið komin í notkun í lok þessa árs eða byrjun næsta. Ef símafyrirtæki á Íslandi munu reka 4G þjónustu á þessum tíðnissviðum má gera ráð fyrir að iPhone útgáfan sem miðuð er að Evrópu og Asíu markaði geti nýtt sér þá þjónustu á Íslandi en hin GSM útgáfan muni einungis geta notað sér þá tækni sem er nú þegar til staðar á Íslandi, þ.e.a.s. 3G og eldri tækni. Þetta ber því sérstaklega að hafa í huga fyrir Íslendinga sem ætla sér að kaupa iPhone síma í Bandaríkjunum.

iPhone 5 kaupendur sem ætla sér að nota símann á Íslandi munu einnig þurfa nýtilkomin nano-SIM símakort en eftirgrennslan hjá íslenskum símafélögum leiddi í ljós að þessi kort koma til Íslands á næstu vikum.

Stikkorð: Apple  • iPhone  • iPhone 5