*

Hitt og þetta 6. september 2019

Íslensk auglýsing fær gullverðlun CLIO

Pipar\TBWA fá verðlaun fyrir „He for She“ herferð UN Women sem ein af bestu auglýsingaherferðum heims

Auglýsingastofan Pipar\TBWA hefur hlotið gullverðlaun í CLIO auglýsingakeppninni fyrir „He for She“ herferð UN Women undir formerkinu: „Kynbundið ofbeldi er nær en þú heldur“. CLIO er ein elsta, stærsta og virtasta auglýsingasamkeppni heims og hefur verið á sama stalli í Bandaríkjum og Cannes Lions-hátíðin hefur haft í Evrópu.

Herferðin var tilnend í flokknum Public Service, en íslensk auglýsingastofa hefur ekki áður unnið CLIO-verðlaun fyrir auglýsingu en árið 1990 fékk AUK, Auglýsingastofa Kristínar, verðlaun fyrir umbúðir sem Elísabet Cohran hannaði. Einnig hefur Ragnar Th. Sigurðsson fengið CLIO-verðlaun fyrir ljósmyndir.

Verðlaunahátíðin CLIO var stofnuð árið 1959 til að verðlauna framúrskarandi sköpun í auglýsingum. Verðlaunað er fyrir að fara nýjar slóðir, færa til mörk og ná nýrri tengingu við markaðinn, en verðlaunaafhendingin fer fram í New York þann 25. september næstkomandi.

Lásu upp sannar frásagnir

Herferðin hefur áður fengið tilnefningu til Cannes Lions-verðlaunanna í flokki Glass Lion og verið verðlaunuð tvisvar hér heima, en hún var valin almannaheillauglýsing ársins á Lúðrinum – íslensku auglýsingaverðlaununum, og herferð ársins á verðlaunahátíð Félags íslenskra teiknara (FÍT).

Selma Rut Þorsteinsdóttir, hönnunarstjóri á Pipar\TBWA, segir það sérstaklega ánægjulegt að fá CLIO gullverðlaun fyrir þessa herferð. „Málefnið skiptir okkur öll gríðarlega miklu máli og við nálguðumst það af eins mikilli virðingu og mögulegt var, en náðum samt þessum slagkrafti,“ segir Selma.

„Samstarfið við UN Women var frábært en allt ferlið við gerð auglýsingarinnar var unnið í nánu samstarfi og þær treystu okkur hundrað prósent fyrir þessari hugmynd, sem gat verið brothætt. Þegar við vorum að vinna herferðina þá vissum við strax að við værum með eitthvað sérstakt í höndunum sem myndi hreyfa við fólki. Við erum bæði meyr í hjartanu og að springa úr stolti. Einnig er þetta svo gaman þar sem einn verðlaunaðasti auglýsingamaður sögunnar, John Hunt frá TBWA er staddur hér á landi til að fagna með okkur. En hann mun halda fyrirlestur á Krossmiðlun næstkomandi föstudag.“

Herferð Pipars\TBWA og UN Women vakti bæði athygli og sterk viðbrögð hér á landi þegar hún var sett í loftið í september 2018. Í myndbandi herferðarinnar les hópur karlmanna, þekktra sem óþekktra, upp sannar frásagnir kvenna af kynbundnu ofbeldi frá ýmsum heimshornum.

Þeir komast svo að því, í miðjum lestri, að þolandinn í einni frásögninni, situr á móti þeim. Það vakti upp sönn og áhrifarík viðbrögð karlmannanna. Sú hugrakka kona, Sigrún Sif Jóelsdóttir, var upphaflega nafnlaus en steig síðar fram í fjölmiðlum.