*

Sport & peningar 22. febrúar 2013

Íslensk getspá lokar á veðmál á körfuboltaleik

Stuðlar víxluðust á Lengjunni á leik Keflavíkur og Tindastóls.

Íslensk getspá lokaði í dag fyrir að hægt væri að leggja undir frekari fjárhæðir á leik Keflavíkur og Tindastóls í Domino´s deild karla í körfuknattleik sem fer fram í kvöld. Nokkrir glöggir tipparar höfðu tekið eftir því að óvenjuhár stuðull var á Keflavík eða 3,1 en stuðullinn á Tindastól var 1,1. Þess má geta að Keflavík er í 4. sæti deildarinnar en Tindastóll í 10 sæti.

Pétur Hrafn Sigurðsson, deildarstjóri getraunadeildar Íslenskrar getspár segir að um mannleg mistök hafi verið að ræða. Stuðlarnir á leikinn hafi víxlast og því hafi verið ákveðið að loka á leikinn á Lengjunni. Pétur segir að ekki hafi verið um háar fjárhæðir að ræða sem höfðu verið lagðar undir á leikinn á meðan hann var opinn.

Gerist sjaldan

„Nei, mjög sjaldan. En þetta er alltaf jafn slæmt þegar þetta gerist,“ segir Pétur aðspurður um hvort slík mistök eigi sér oft stað. Hann segir mörg þúsund leiki á Lengjunni á hverju ári og því geti það gerst að stuðlar víxlist.

Fyrir þá sem náðu að tippa á leikinn og þá væntanlega á sigur Keflavíkur í deildinni þá er ekki víst að stuðullinn 3,1 muni gilda í kvöld. Ákveðið verður síðar í dag hvort tipparar fái einfaldlega stuðulinn 1,0 í staðinn og leikurinn detti út hjá þeim sem tippuðu á hann.

Ekki kemur heldur til greina að opnað verði fyrir frekari veðmál á leikinn. Þá gætu nefnilega tipparar, sem settu pening á Keflavík í dag, veðjað einnig á sigur Tindastóls í kvöld og þar með orðið sér úti um veðmál þar sem þeir myndu græða, sama hvort liðið vinnur í kvöld. Reyndar með þeim fyrirvara að ekki verði jafnt að loknum venjulegum leiktíma sem er nokkuð sjaldgæft í körfubolta.

Stikkorð: Körfubolti  • Lengjan