*

Tíska og hönnun 14. mars 2018

Íslensk hönnun selst fyrir 7 milljarða

Forstjóri Epal segir að PATO stóllinn hafi selst fyrir 1,8 milljarða og fuglar Sigurjóns Pálssonar fyrir 1,1 milljarða.

Eyjólfur Pálsson forstjóri Epal segir að honum reiknist til að íslenskar hönnunarvörur sem fyrirtækið opnaði sýningu á dag hafi selst fyrir samtals 7 milljarða króna á síðustu árum. Í tilefni af 10 ára afmæli HönnunarMars opnaði Epal hönnunarsýningu í Skeifunni 6 í dag, miðvikudaginn 14. mars, undir yfirskriftinni Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd.

Á sýningunni í ár, sem stendur fram á sunnudag, er íslensk hönnun í kastljósinu sem náð hefur hæstu hæðum varðandi sölu og verðmætasköpun, bæði hér heima og erlendis. Jafnframt er hulunni svipt af nýjum áhugaverðum hönnunarvörum sem bundnar eru vonir við að verði einnig eftirsóttar.

Miðar við síðustu tvö til þrjú árin

„Sala á þessum íslensku hönnunarvörum sem við erum að sýna hefur verið mjög góð í verslunum Epal og um allan heim og reiknast mér til að hún nemi um 7 milljörðum króna sl. 2-3 ár,“ segir Eyjólfur Pálsson, forstjóri Epal.

Við opnun sýningarinnar í dag kynnti Eyjólfur fyrir ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, þann góða árangur sem náðst hefur bæði heima og erlendis í sölu á íslenskum hönnunarvörum að því er segir í fréttatilkynningu um málið.

Sem dæmi um góða sölu á einstökum hönnunarvörum nefnir Eyjólfur sem dæmi fugla Sigurjóns Pálssonar en á sl. þremur árum hafa selst um 210.000 fuglar fyrir um 1.1 milljarð króna.

Púðar frá Notknot, sem aðeins hafa verið í framleiðslu í hálft annað ár, eru líka vinsælir og hafa þegar selst um 40.000 púðar fyrir um 600 milljónir króna. Þá hefur PATO stóll Guðmundar Lúðvíks, sem hannaður var 2013, selst í um 60.000 eintökum fyrir um 1,8 milljarða króna.

Stólarnir notaðir í Veröld Vigdísar

„Það má til gamans geta þess að PATO stóllinn er annar tveggja stóla í hinu nýja húsi Veröld Vigdísar, sem hýsir stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Þar eru 360 PATO stólar og 72 eintök af stól eftir Svein Kjarval sem við höfum hafið framleiðslu á að nýju,“ segir Eyjólfur.

Af áhugaverðum nýjum vörum á sýningunni nefnir Eyjólfur útskorin hreindýr eftir Pál Garðarsson, sem ganga undir nafninu Himneskir herskarar, og Epal hefur nú hafið framleiðslu á.

„Við fórum í samstarf við hann um framleiðslu á þessum vörum með tilstyrk Hönnunarsjóðs Epals, sem settur var á laggirnar á 40 ára afmæli Epal, m.a. með framlögum frá okkar viðskiptavinum. Þetta er fyrsta verkefni sjóðsins sem borgar framleiðslukostnaðinn. Eftir því sem varan selst skila svo fjármunirnir sér aftur inn í þennan ágæta sjóð sem aldrei tæmist,“ segir Eyjólfur.

Hönnunarvörur eftir hátt í 20 íslenska hönnuði eru á sýningunni í Epal, ásamt nemendasýningu frá Myndlistaskóla Reykjavíkur, undir stjórn Rögnu Fróðadóttur, sem ber heitið Úr böndunum. Sýningin er opin frá 10-18 á fimmtudag og föstudag, 11-16 á laugardag og 12-16 á sunnudag.